Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:59]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég er enn þá að fjalla hérna um útdrætti úr umsögnum um frumvarpið og ég var kominn að útdrættinum úr umsögn presta innflytjenda og flóttafólks og ætla að halda áfram að renna yfir hana. Prestar innflytjenda og flóttafólks benda á þá staðreynd að fólk á flótta er viðkvæmur hópur sem er berskjaldaðri en aðrir fyrir því að verða fórnarlömb mansals og ofbeldis og benda á mikilvægi þess að hlúa áfram að þessum hópi til að hann komist ekki í slíkar örvæntingarfullar aðstæður. Það geti skapað ný vandamál sem hefðu afar neikvæð áhrif á þessa einstaklinga og í raun samfélagið allt og því myndi jafnframt fylgja ýmis beinn og óbeinn kostnaður sem þyrfti að bregðast við. Prestar innflytjenda og flóttafólks benda einnig á í umsögn sinni að það sé fyrirsjáanlegt að við að fella niður grunnþjónustu muni það þvinga fólk í afar erfiða stöðu sem aftur myndi skapa álag á önnur félagsleg kerfi, t.d. sveitarfélög og önnur hjálparsamtök þangað sem fólk leitar sem er í neyð.

Vík ég þá að umsögn Rauða krossins á Íslandi. Í henni er vikið að samráði. Líkt og í ótal mörgum öðrum umsögnum gagnrýnir Rauði krossinn á Íslandi skort á samráði og samtali við aðila sem starfa í málaflokknum og hafa til þess sérþekkingu og ég get ekki annað en tekið undir þetta, ég get ekki annað en tekið undir það hversu mikilvægt það er að nýta sér þá sérþekkingu sem til er og stendur stjórnvöldum til boða. Það þarf ekki annað en bara að biðja um það og öll þessi hjálparsamtök hafa ítrekað bent á að þau séu til þjónustu reiðubúin hvað það varðar.

Eins og svo mörg önnur hjálparsamtök og umsagnaraðilar um þetta frumvarp leggst Rauði krossinn gegn ákvæðinu um sjálfkrafa kæru og það er sennilega óþarfi að reifa frekar þá annmarka sem eru á þeirri framkvæmd, þann augljósa annmarka hversu lítið má út af bregða til að það verði umsækjenda hreint ómögulegt að skila inn kæru. Rauði krossinn bendir einnig á að ákvarðanir Útlendingastofnunar eru birtar umsækjendum á íslensku, yfirleitt 10–20 bls. sem eru ekki þýddar á önnur tungumál, og ákvörðun er svo send talsmanni umsækjanda sem þarf þá í kjölfarið að bóka fund með viðkomandi og túlki. Þetta er sjaldnast hægt að gera samdægurs. Rauði krossinn víkur einnig að vanrækslu Útlendingastofnunar á rannsóknarskyldu og bendir á að réttara væri að Útlendingastofnun sýndi frumkvæði við að kanna hvort einstaklingur gæti verið í sérlega viðkvæmri stöðu. Reglulega komi það upp að umsækjendur hafi ekki verið komnir með tíma í fyrstu heilbrigðisskoðun þegar þeir mæta til viðtals hjá Útlendingastofnun en í slíkri skoðun er skimað fyrir líkamlegum og andlegum veikindum.

Og nú er ég búinn, eins og svo oft áður í kvöld, með tímann minn og neyðist til þess að óska þess eindregið að fá að fara aftur á mælendaskrá.