Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:05]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að lesa hér umsögn Rauða krossins á Íslandi. Ég var komin að umsögn um 8. gr. þessara laga og ég ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn telur að við gerð frumvarpsins hafi verið lögð óeðlileg áhersla á tengsl umsækjenda við mögulegt móttökuríki fremur en vernd flóttamanna. Rauði krossinn telur ótækt að atriði á borð við tengsl við ríki sem umsækjandinn hefur aldrei komið til geti orðið grundvöllur að synjun á að taka umsókn til efnismeðferðar.

Í hugtakasafni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna er hugtakið fyrsta griðland (e. first country of asylum) skilgreint með eftirfarandi hætti:“

Ég mun ekki lesa það upp hér og ég fer þá bara yfir í næsta lið, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á vægi hugtaksins protection og að skilgreining stofnunarinnar tekur ekki mið af því að umsækjandi hafi tengsl við móttökuríkið eins og frumvarpið virðist byggja í ríkum mæli á. Í hugtakasafni Flóttamannastofnunar er hugtakið protection í framangreindum skilningi einnig að finna og er þar tekið fram að ekki sé um að ræða alþjóðlega vernd þó að tengsl séu þar á milli. […] Af þeim ástæðum krefjist beiting ákvæðisins vandaðrar og einstaklingsbundinnar skoðunar. Þá segir að beiting reglunnar um fyrsta griðland án þess að gengið sé úr skugga um að móttökuríkið taki á móti umsækjandanum myndi fela í sér brot á ákvæði reglugerðarinnar. Enn fremur segir að sönnunarbyrði hvíli á ríkinu sem hefur umsókn um vernd til meðferðar að ganga úr skugga um að umsækjandinn hafi aðgang að vernd í móttökuríkinu […]. Að þessu sögðu kveðst Flóttamannastofnun hafa ríkar áhyggjur af b-lið ákvæðisins.“

Stofnunin bendir á að í b-lið ákvæðisins séu orð sem séu ekki skilgreind.

„Að lokum minnir Flóttamannastofnun í umfjöllun sinni á að nauðsynlegt er að taka mið af rétti umsækjanda til sameiningar fjölskyldu og kanna fjölskyldutengsl umsækjandans í móttökuríkinu. Það sé skoðun stofnunarinnar að grundvallarréttur til einingar fjölskyldu sé yfirgnæfandi þáttur sem ríki sem hafa umsóknir til meðferðar skuli taka til greina. Það skuli því ganga framar möguleikanum á virkri vernd sem þriðja ríki veitir við mat á því hvort einstaklingur skuli sendur þangað.

Það er mat Rauða krossins að áhersla frumvarpsins á tengsl umsækjenda við hugsanlegt móttökuríki eigi sér ekki samhljóm í sjónarmiðum Flóttamannastofnunar. Þá telur Rauði krossinn að ákvæðið verði í mörgum tilvikum óframkvæmanlegt. Með vísan til alls framangreinds leggst Rauði krossinn alfarið gegn breytingunni og mælist eindregið til þess að d-liður ákvæðisins verði ekki að lögum.“ — Ég ætla að biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.