Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[23:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að reyna að halda ræðu minni áfram þar sem frá var horfið þó að nú sé liðin nokkur stund. Þegar ég hætti hér síðast var ég að fara yfir c-lið 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um fresti og tafir á afgreiðslu umsóknar sem eru á ábyrgð umsækjenda sjálfs. Það er nefnilega þannig í núgildandi lögum að ef umsókn sem til stendur að vísa frá hefur ekki verið afgreidd, það hefur sem sagt ekki verið ákveðið hvort það eigi að vísa henni frá eða ekki innan 12 mánaða frá því hún var lögð fram, þá á einstaklingurinn rétt á efnismeðferð, nema viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á málsmeðferðinni sjálfur. Kærunefnd útlendingamála hefur innrammað ákveðna túlkun á þessu ákvæði sem er þannig að — ég ætla bara að lesa upp úr greinargerðinni með þessu ákvæði því að það er nokkuð skýrt þar, með leyfi forseta:

„Í framkvæmd hefur kærunefnd útlendingamála túlkað orðalagið í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laganna á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“

Ég ætla aðeins að halda áfram með tilvitnun í þessa greinargerð því til stuðnings sem ég hélt fram, fullyrti hér í pontu fyrr í dag, að ástæðan fyrir því að þessi breyting er lögð til hér í frumvarpinu snúist ekki um það að skýra ákvæði um það hvað teljist vera tafir á ábyrgð umsækjenda heldur sé tilgangurinn beinlínis sá að óvirkja þetta ákvæði þar sem frumvarpshöfundar eru ósammála því að einstaklingar sem hafa fengið vernd í öðru ríki, t.d. Grikklandi, eigi rétt á vernd hér á landi. Þetta var að mínu mati skýrt í umræðum um þetta frumvarp í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég ætla að lesa þetta upp máli mínu til frekari stuðnings. Þetta er sem sagt úr greinargerð með frumvarpinu. Þetta er orðalag frumvarpshöfunda sjálfra, með leyfi forseta:

„Sú túlkun“ — sem ég var að rekja; kærunefndar — „er þó ekki afdráttarlaus því í framkvæmd hafa komið upp tilvik þar sem óskýrt orðalag gildandi ákvæðis hefur skapað óvissu og möguleika til misnotkunar, sérstaklega þegar um fjölskyldur eða fólk í hjúskap og sambúð er að ræða. Hefur þannig t.d. almennt verið talið ótækt að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar sama hversu augljósar tafir eru á málinu eða hversu einbeittur vilji var til þess að valda þessum töfum. Gildandi lagaákvæði getur því leitt til þess að fjölskyldur með börn á framfæri eða fólk í hjúskap eða sambúð þvingi fram efnislega málsmeðferð einfaldlega með því að tefja mál sitt, svo sem með því að neita að fara í PCR-próf vegna flutnings eða dvelja á ókunnum stað á meðan frestir renna út.“

Ég ætla að fá að staldra hérna aðeins við vegna þess að við ræddum þetta aðeins í allsherjar- og menntamálanefnd, ekki innan nefndarinnar því að engin teljandi umræða átti sér stað meðal nefndarmanna, hins vegar spurði ég fulltrúa Rauða krossins út í þetta þar sem Rauði krossinn hefur séð um talsmannaþjónustu um árabil, allt þar til í febrúar eða mars á síðasta ári. Ég spurði þau hversu mörg mál þau þekktu þar sem foreldrar hefðu tafið mál og ekki hefði verið talið unnt að líta til þeirra tafa vegna þess að það hefði bitnað á hagsmunum barnanna. Barnið var ekkert að tefja málið. Fulltrúar Rauða krossinn sögðu: Ekkert. Þau kannast ekki við neitt slíkt mál. Vera má að það séu til dæmi um þetta, ég þekki það ekki. Rauði krossinn fer náttúrlega ekki með öll mál. En það er alveg ljóst að þetta er ekki kerfisbundið vandamál, þetta er ekki eitthvað sem er rétt að bregðast við með löggjöf sem beinlínis brýtur á réttindum barna til þess eins að koma í veg fyrir svindl sem einhverjir mögulega, teljandi á fingrum annarrar handar, láta sér detta í hug.

Ég verð víst að láta staðar numið hér þó að ég sé bara rétt að byrja og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.