Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:10]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef í síðustu ræðum verið að víkja að útdráttum úr umsögnum um frumvarpið og var langt kominn með útdrátt úr umsögn Rauða krossins. Hún er mjög ítarleg og inniheldur ótal atriði. Hér er t.d. bent á 8. gr. frumvarpsins sem fjallar um að synja megi efnismeðferð hafi umsækjandi slík tengsl við annað ríki að eðlilegt og sanngjarnt sé að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Hér erum við aftur komin í mjög matskenndar forsendur. Það sem ég hef séð af þessu ákvæði í frumvarpinu bendir til þess að þetta sé háð mögulega matskenndum aðstæðum hverju sinni og ég átta mig illa á hvernig tryggja megi jafnræði.

Ég held áfram að vísa í þennan úrdrátt. Það er ekki einu sinni skilyrði að viðkomandi eigi rétt nú þegar til dvalar í þessu ríki. Það er því ljóst að flutningur á einstaklingi til slíks ríkis getur verið erfiðleikum bundinn og jafnvel óframkvæmanlegur og getur því dregist mjög á langinn.

Það er vikið að fleiru. Það er vikið að 7. gr. varðandi sérstakar málsmeðferðir vegna endurtekinna umsókna. Þar er verið að, að því er virðist, benda á að verið sé að veita þrengri rétt en er áskilið í 24. gr. stjórnsýslulaga sem er lágmarksréttur innan stjórnsýslunnar. Í 24. gr. er ekki krafa um að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á beiðni viðkomandi.

Hér er aftur vikið að 8. gr., b-lið, sem fjallar um fyrsta griðland. Hér er gert ráð fyrir að hægt sé að synja umsækjenda um efnismeðferð hafi hann náin fjölskyldutengsl við ríki sem hann hefur jafnvel aldrei komið til. Jafnframt er bent á að það eru ekki neinir viðtökusamningar í gildi við önnur ríki en þau sem eru aðilar að Dyflinnarreglugerðinni. Það er rétt að taka undir að þetta gæti orðið afar flókið í framkvæmd en það mun að öllum líkindum fyrst og fremst koma niður á umsækjanda.

Hér er einnig vikið að því hvað ákvæðið er óskýrt, víðtækt og gerir of litla kröfu um vernd í móttökuríki og til mats á aðstæðum þar.

Í athugasemdum við greinina segir að ekki sé einu sinni gerð krafa um að móttökuríkið sé aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Hér er rétt að staldra við. Eðlilega furðar Rauði krossinn sig á því og telur það ótækt, enda sé flóttamannasamningurinn á grundvelli þeirra viðmiða sem Ísland og samanburðarríki setja um vernd flóttamanna. Mig rekur minni til þess að forsætisráðherra hafi verið spurð sérstaklega út í þetta á fundi erlendis í þarsíðustu viku og þetta hljómar hræðilega.

Ég er ekki búinn að ná að fara yfir þennan útdrátt að fullu og óska því eftir að fá að komast aftur á mælendaskrá.