Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:26]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef í síðustu ræðum verið að víkja að útdráttum úr umsögnum um þetta frumvarp sem er hér til umfjöllunar og er að lokum að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi. Þar virðist Rauði krossinn ítreka áhyggjur margra annarra umsagnaraðila. Ég ber niður þar sem Rauði krossinn bendir á það sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur bent á, að vernd sem í boði er þurfi að vera, með leyfi forseta, á ensku, „effective“. Vernd uppfyllir ekki það skilyrði ef það er skortur á varanlegum lausnum, takmörkuð geta er til að hýsa flóttamenn og vangeta til að veita virka vernd. Af þeim ástæðum krefjist beiting ákvæðisins vandaðrar og einstaklingsbundinnar skoðunar. Þá segir að beiting reglunnar um fyrsta griðland án þess að gengið sé úr skugga um að móttökuríkið taki á móti umsækjandanum myndi fela í sér brot á ákvæði reglugerðarinnar.

Í breytingu á afmörkun 12 mánaða frests vísast til c-liðar 8. gr., breytinga á grein um útlendingalög sem fjallar um hvenær umsækjendur öðlast rétt til efnismeðferðar vegna þess að afgreiðsla á máli þeirra hefur dregist. Í núgildandi lögum geta umsækjendur fengið efnismeðferð vegna tafa á afgreiðslu umsóknar allt þar til þeir yfirgefa landið, þ.e. miðað er við heildardvalartíma umsækjenda á landinu, þann tíma frá því að umsókn er lögð fram og þar til flutningur úr landi fer fram. Með breytingunni sem lögð er til yrði ekki tekið tillit til aðstæðna þeirra sem fengið hafa endanlega niðurstöðu í máli sínu en þurfa að bíða í langan tíma, jafnvel í marga mánuði eða ár, eftir því að verða flutt brott. Á þeim tíma má fólkið ekki vinna, er ekki með kennitölu og hefur takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Í ofanálag myndi það að sjálfsögðu vera á götunni, þ.e. miðað við ákvæðið um þjónustuskerðinguna. Ekki er gerð undantekning fyrir börn. Að lokum er vísað í að það þurfi nánari skilgreiningu á því hvenær umsækjandi hafi talist hafa tafið mál sitt og vísast þar til c-liðs 8. gr. frumvarpsins.

Nú hef ég lokið yfirferð minni yfir útdrættina úr umsögnunum. Það sem blasir við er að þeim ber í mörgum meginatriðum, sérstaklega hvað varðar ákveðnar greinar, mjög saman. Vísast þar til t.d. 6. gr. og 8. gr. Margir nefna 7. gr. Ótal mörg samtök leggjast gegn því að frumvarpið í heild sinni verði lagt fram og benda á það sem við höfum bent á hér, að frumvarpið er svo gallað að því er ekki í núverandi ástandi viðbjargandi. Réttast væri að taka mark á þeim tillögum sem hafa komið fram hér og kalla þetta aftur inn í nefndina og vinna þetta almennilega í samráði við fagaðila og klára síðan að taka hér einstakar greinar frumvarpsins til umræðu í 2. umr. þar sem það á heima.