Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:09]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég er búinn að vera hér í ræðum að vísa til þess skorts á samráði sem hefur einkennt alla þá vinnu sem ég hef séð tengda þessu frumvarpi. Allar þær umsagnir sem virðast hafa verið lagðar fram en ekki nýttar, ég hef viljað gera þeim hér skil og langar mig núna til að gera umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um útlendinga, nr. 80/2016, alþjóðleg vernd 382. mál, skil. Ég gríp niður í umsögnina með leyfi forseta:

„2. gr.

Hér er lagt til, í frumvarpinu, að við 7. gr. laga um útlendinga bætist ákvæði þess efnis að ákvarðanir Útlendingastofnunar um synjun á efnislegri meðferð á grundvelli 36. gr. sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála nema umsækjandi óski þess sérstaklega að svo verði ekki. Þessi breyting mun stytta þann tÍma sem umsækjendur hafa til að kynna sér forsendur niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar, afla nýrra gagna og undirbúa greinargerð vegna kæru. Það getur oft tekið tíma að afla gagna erlendis frá til að styðja betur við umsókn og stór hluti fólks býr ekki yfir þekkingu á lagalegum réttindum og þarf leita sér aðstoðar við undirbúning kæru. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa leggst gegn því að 7. gr. laganna verði breytt með þessum hætti.“

6. gr.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa er því mótfallin að einstaklingi sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd, og er gert að fara af landi brott, njóti engrar þjónustu 30 dögum frá því að ákvörðun var endanleg á stjórnsýslustigi. Það getur tekið tíma fyrir einstakling að taka ákvörðun um næstu skref og það er ómannúðlegt að veita fólki ekki t.d. nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á meðan það er á landinu. Ef þessi lagabreyting verður að veruleika þarf að horfast í augu við að kostnaður eftir þessa 30 daga mun falla á sveitarfélögin og þarf þá fjármagn til að mæta honum að koma frá ríkinu. Í 6. gr. frumvarpsins er jafnframt fjallað um að réttindi umsækjenda, frá EES, EFTA-ríkjum eða af lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki, falli niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn þeirra um alþjóðlega vernd. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur það mikla einföldun á stöðu mála að meta umsóknir bersýnilega tilhæfulausar séu umsækjendur ríkisborgarar EES- eða EFTA-ríkis eða frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar um örugg ríki. Þrátt fyrir að ríki geti talist öruggt fyrir einn hóp fólks er ekki þar með talið að það sé öruggt fyrir alla hópa eða alla einstaklinga ef út í það er farið. Það er ljóst að þegar Útlendingastofnun útbýr lista yfir örugg ríki þá er ekki verið að taka mið t.d. af stöðu hinsegin fólks í löndunum.. Til að mynda má nefna að í löndum sem teljast örugg s.s. Georgía og Ungverjaland nýtur hinsegin fólks nær engrar lagalegrar verndar samkvæmt Regnbogakorti ILGA Europe sem er yfirlit yfir lagaleg réttindi hinsegin fólks í Evrópu. Listi yfir örugg lönd sem nær ekki til stöðu hinsegin samfélagsins eða baráttu kvenna svo dæmi sé tekið er ekki að ná yfir stöðuna og mun kannski aldrei gera það. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur því að meta eigi hverja umsókn fyrir sig og meta forsendur óháð upprunaríki umsækjenda.“

Nú er svo komið að ég á töluvert eftir af lestrinum en engan tíma og óska ég þess að fara aftur á mælendaskrá.