Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Árið 2012 var gefin út skýrsla um málefni útlendinga utan EES. Í skýrslunni var m.a. fjallað um mál umsækjenda um alþjóðlega vernd sem þá voru nú almennt kallaðir hælisleitendur sem mér hefur alltaf þótt fallegt orð og þykir leiðinlegt að það sé í rauninni í dag réttast að nota það ekki, það hefur verið tekið úr umferð eins og góð orð eru gjarnan þegar búið er að gefa þeim neikvæðan tón með því að tala illa um fólk. En ég ætla að leyfa mér að tala um hælisleitendur, mér finnst það fallegt.

Ég ætla að fá að lesa upp úr þessari skýrslu þar sem mikið samráð var haft við marga aðila innan kerfis sem utan varðandi það hvað mætti betur fara, með leyfi forseta:

„Allir umsagnaraðilar“ — ég endurtek — „Allir umsagnaraðilar sem nefndin leitaði til eru á einu máli um að afgreiðslutími mála sé of langur og grundvallaratriði sé að stytta biðtíma hælisleitenda eftir úrlausn mála. Jafnframt komu fram sjónarmið um að löng málsmeðferð hafi slæm áhrif á hælisleitendur, bæði líkamleg og andleg. Sambærilegar upplýsingar hafa komið fram hjá alþjóðlegum eftirlitsaðilum. Þá hefur langur málsmeðferðartími í för með sér aukinn kostnað fyrir stjórnvöld vegna þeirrar þjónustu sem stjórnvöld eru skuldbundin til að veita hælisleitendum meðan á meðferð mála stendur. Nefndin telur það vera forgangsatriði að málsmeðferðartími hælisumsókna verði styttur og leggur til að sett verði til viðmiðunar hámarkstími sem afgreiðsla máls megi taka. Þó skal áréttað að styttri málsmeðferðartími má í engu koma niður á gæðum rannsóknarinnar. Nefndin leggur til að stjórnvöld setji sér það markmið að tímalengd meðferðar máls, hvoru tveggja á fyrsta stjórnsýslustigi og endurskoðun þess á æðra stjórnsýslustigi, skuli að jafnaði ekki taka lengri tíma en sex mánuði. Nefndin áréttar þó að æskilegt er að málsmeðferð taki skemmri tíma í þeim tilfellum þar sem það er mögulegt en einnig að hún getur tekið lengri tíma í erfiðum málum, s.s. þegar torsótt er að afla gagna eða að hælisleitandi reynist ekki samstarfsfús. Til að þetta sé mögulegt verður að veita meira fjármagni í málaflokkinn.“

Það var m.a. á grundvelli niðurstaðna þessarar úttektar, sem gerð var í kjölfar gríðarlegrar reiði í samfélaginu vegna meðferðar hælismála á báða bóga, bæði var fólk reitt yfir þeim gríðarlegu fjármunum sem veitt er í þennan málaflokk, og alltaf meira og meira, og sömuleiðis komu í fjölmiðla mál einstaklinga sem vöktu mikla reiði í samfélaginu, mál einstaklinga sem höfðu dvalið um árabil jafnvel án þess að fá niðurstöðu í máli sínu — þannig að það voru allir sammála um að það þyrfti að stytta þetta.

Með lögunum árið 2016 voru gerðar tvær mjög góðar breytingar til að tryggja þetta. Það hefur verið ítrekað fullyrt hérna í umræðunni um þetta frumvarp sem við erum að ræða hér að þessar reglur um tímafresti á málsmeðferð séu íslenskar sérreglur. Ég þori ekki að fullyrða að þær séu hvergi til í Evrópu, mér finnst líklegt að þær fyrirfinnist einhvers staðar enda eru Evrópuríki og löggjöf þeirra gríðarlega misjöfn í þessum málaflokki. Það gæti komið einhverjum á óvart en ég þekki ekki til þess. Ég veit ekki til þess að þessir tímafrestir séu í þessum málum. Það má hins vegar athuga það að í t.d. öllum ríkjum Norðurlanda gilda grundvallarreglur um málsmeðferðarhraða stjórnvalda. Það er gjarnan þannig að ef málsmeðferð dregst er talið rétt að borgarinn, já, útlendingar eru líka borgarar í þessum skilningi, beri einhvern hag af því að málsmeðferð dragist, sem sagt að honum sé bætt það tjón, bættur sá skaði sem hlýst af langri málsmeðferð. Það er ótvírætt að langur málsmeðferðartími bitnar fyrst og fremst á umsækjendum sjálfum, sannarlega á ríkissjóði líka, allt of mikið — bitnar á öllum.

Það sem ég vildi nefna er Dyflinnarreglugerðin, sem ég ætla að fara í næst, þar sem eru tímafrestir. Það eru reglugerðir sem gilda um alla Evrópu. Það er eitt svolítið skemmtilegt við tímafrestina í Dyflinnarreglugerðinni sem ég myndi leggja til að við tækjum upp í okkar löggjöf, það myndi einfalda mjög mikið og auka skilvirkni. (Forseti hringir.) Ég mun fara yfir það í minni næstu ræðu og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.