Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:25]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Hér í fyrri ræðu minni var ég að lesa umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um útlendinga, nr. 80/2016, alþjóðleg vernd, 382. og vil ég halda áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa vill árétta að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem lögfest er í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn máls á grundvelli þjóðernis. Þannig er skv. þeim lögum óeðlilegt að sjónarmið um örugg upprunaríki hafi áhrif á þær sönnunarkröfur sem gerðar eru til umsækjenda. Þá leggur 6. gr. frumvarpsins einnig til að bersýnilega tilhæfulausar umsóknir verði undanskildar frá ákvæði 18. gr. stjórnsýslulaga um frestun máls. Samkvæmt 18. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvaldi heimilt að veita aðila máls tiltekinn frest til að kynna sér gögn máls og tjá sig um þau. Er þessi heimild mikilvægur þáttur í að tryggja upplýsinga- og andmælarétt viðkomandi. Í 18. gr. stjórnsýslulaga eru jafnframt tæmandi talin þau tilvik þar sem takmarka má rétt til frestunar máls. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur þá breytingu sem 6. gr. frumvarpsins leggur til varhugaverða, enda mega sjónarmið um skilvirka málsmeðferð ekki verða til þess að mál séu ekki nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Undirstaða þess að umsókn um alþjóðlega vernd hljóti fullnægjandi meðferð hlýtur að vera réttur umsækjanda til að varpa ljósi á aðstæður sínar og ástæður flótta.“

Nú víkjum við að 7. gr.

„Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa gerir athugasemdir við þessa breytingu enda setur greinin umsækjendum um alþjóðlega vernd þröngar skorður varðandi möguleika á að fá endurtekna umsókn tekna til skoðunar. Í greininni er tekið fram að ekki skuli taka mál umsækjanda fyrir á nýjan leik heldur einungis horft til þess sem leiðir af þeim nýju upplýsingum eða gögnum sem lögð hafa verið fram. Þá er gert ráð fyrir að endurtekinni umsókn skuli vísað frá ef umsækjandi er ekki á landinu. Þessi þröngu skilyrði eru alvarleg í ljósi þess að til stendur að ný málsmeðferð endurtekinna umsókna komi í stað endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa telur þessa takmörkun fela í sér óeðlilega réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Endurupptaka stjórnsýslumáls felur í sér mikilvægt réttaröryggi fyrir aðila máls, t.d. ef túlkun stjórnvalds á atvikum máls er röng eða stjórnvald hefur skort upplýsingar eða gögn sem hefðu haft áhrif á niðurstöðu málsins. Endurupptaka stjórnsýslumáls í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga felur í sér að mál er tekið til nýrrar umfjöllunar þar sem grunur leikur á að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun í málinu eða ástæða þykir til að taka nýja ákvörðun. Því er ekki um að ræða nýtt stjórnsýslumál heldur er eldra mál tekið til nýrrar meðferðar. Hlýtur það að fara gegn tilgangi stjórnsýslulaga ef sérlög sem fela í sér vægari kröfur til stjórnvalda geta vikið til hliðar þeim réttindum sem stjórnsýslulögin eiga að tryggja.“

Frú forseti. Mig langar að staldra við hérna og benda á hversu mikilvægur punktur þetta er, hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um þau grundvallarréttindi sem borgarar og öll þau sem hér dvelja eiga tilkall til. Ég er ekki búinn að fara yfir þessa umsögn og óska þess því að fá að fara aftur á mælendaskrá.