Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[01:49]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Aftur um Líbíu og þær aðgerðir sem árum saman hafa verið í gangi við það vissulega að leita að og bjarga fólki í háska. Fólk sem er á flótta frá stríðsástandi, náttúruhamförum, hvers konar hörmungum, fer í gegnum Líbíu á leið til Evrópu, borgar kannski einhverjum smyglurum til að koma sér yfir hafið á hriplekum á bátum. Mörg farast, tugir þúsunda hafa sokkið í sæ við að reyna að komast í frelsið og öryggið. Þannig að það er vissulega ástæða til að sinna þessum hluta starfsins.

En raunin er sú að Evrópusambandið, sem upphaflega nálgaðist þetta sem stórt mannúðarverkefni, breytti fljótlega sinni aðferðafræði, skipti um nálgun. 2018 dró Frontex t.d. úr því svæði sem þau störfuðu á í þessu skyni þannig að það færðist frá því að teygja sig 70 sjómílur frá strönd Ítalíu, sem er nú stór hluti af hafsvæðinu milli Ítalíu og Líbíu, niður í 24 sjómílur frá ströndum Ítalíu. Þar með var strandgæsla Líbíu komin í þá stöðu að fiska upp — mér finnst nú kannski ekki nógu virðulegt tala um að fiska upp þetta fólk en það er dálítið svoleiðis, þetta er fólk á einhverjum pínulitlum gúmmítúttum sem loftið lekur úr alla leiðina og er bara í hræðilegum aðstæðum. En líbíska strandgæslan skilar fólkinu til Líbíu á meðan skip á vegum Frontex höfðu það hlutverk að koma fólki í skjól, annaðhvort á Möltu eða Ítalíu þar sem aðstæður eru nú ekki fullkomnar en fjarri jafn hræðilegar og þær eru í líbísku flóttamannabúðunum.

Aðkoma Landhelgisgæslu Íslands að þessu er eitthvað sem mig langar örlítið að ræða. Hún hefur kannski ekki mikið verið rædd hér í sal. Við höfum jú talað um hversu bagalegt það sé að stór hluti af björgunargetu Landhelgisgæslunnar hafi árum saman stóran hluta úr ári verið bundinn suður í Miðjarðarhafi. Þar munar kannski mestu að eftirlitsaðilinn TF-SIF sem nánast bara frá því að Ísland eignaðist hana hefur verið hálft árið í ýmsum verkefnum fyrir Frontex en í úttekt Ríkisendurskoðunar á verkefnum og fjárreiðum Gæslunnar sem var skilað til þingsins á síðasta ári bregst ráðuneytið aðeins við gagnrýni á þetta með því að taka fram að ákvörðun um að nýta flugvélina í verkefni fyrir Frontex sé ekki einungis tekin á grundvelli fjárhagslegra sjónarmiða, sem sagt þeirra sjónarmiða að Frontex borgar, hún er leigð út þannig að Gæslan hefur jafnvel tekjur af þessu. Ráðuneytið segir að önnur ástæða sé sú að íslenska ríkið sé skuldbundið á grundvelli Schengen-samstarfsins til að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum og ber í rauninni skylda til að veita liðsinni við slíkar aðgerðir.

Þetta er dálítið áhugaverð leið til að ramma þetta inn vegna þess að það að veita liðsinni innan Schengen-samstarfsins er hægt að skoða á ýmsan hátt eins og t.d. að veita grískum stjórnvöldum liðsinni með því að vera ekki alltaf að endursenda fólk inn í brotin verndarkerfi Grikklands. Það væri að veita liðsinni frekar en að beita heimildargrein um Schengen til að velta því sem íslensk stjórnvöld sjá sem vandamál yfir á herðar grískra stjórnvalda. (Forseti hringir.) Það er greinilega ekki sama hvar íslenska ríkinu rennur blóðið til skyldunnar þegar kemur að því að taka þátt í Schengen-samstarfinu og því miður hefur það ekki alltaf verið mannúðin sem hefur verið valin.