Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Í þessari umræðu hef ég fjallað nokkuð um aðstæður flóttafólks í Grikklandi, ekki svo sem í fyrsta sinn. Þetta er þrástef í umræðum um stöðu fólks á flótta vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa mörg síðustu ár gert allt of mikið af því að senda fólk sem hingað leitar í ótryggari og ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi. Því var reyndar hætt fyrir rúmum áratug að senda fólk aftur til Grikklands sem átti óafgreiddar umsóknir þar um alþjóðlega vernd. Þó var heimild til þess samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. En vegna þess að ástandið þar þótti ekki fólki bjóðandi þá var tekin sú ákvörðun í dómsmálaráðuneytinu, bara á borði ráðherra, að hætta endursendingum á þessum forsendum.

Síðan það var ákveðið hefur sá hópur vaxið töluvert sem dvelur í Grikklandi með samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd, fólk sem í orði kveðnu nýtur verndar grískra stjórnvalda en í reynd eru aðstæður þess svo slæmar að það er farið að flýja ástandið í Grikklandi eins og það væru bara sjálfstæðar hamfarir út af fyrir sig að losna undan enda skiljanlegt kannski, fólk sem býr við heimilisleysi, fólk sem ekki hefur tryggar tekjur, fólk sem hefur ekki aðgang að heilbrigðiskerfinu, fólk sem á börn sem ekki geta stundað skóla. Þetta fólk lítur auðvitað ekki á þetta verndarkerfi sem einhverja vernd heldur eitthvað miklu verra og leitar á náðir fólks eða landa sem treysta sér til að bjóða mannúðlegri aðstæður. Þessum hópi hefur fjölgað sem kemur til Íslands og sækir um vernd eftir að hafa fengið sambærilega umsókn samþykkta í Grikklandi.

Í fyrri útgáfum þessa frumvarps var sett inn ákvæði sem hefði gert stjórnvöldum beinlínis óheimilt að taka mál þessa fólks til efnislegrar meðferðar. Það hefði bara verið lögfest sjálfvirk endursending á fólki í þessum aðstæðum. Það ákvæði er farið úr frumvarpinu eins og það stendur í dag og það er áhugavert að hlusta á fulltrúa Vinstri grænna tala um að það sé fyrir tilstilli þess flokks. Þau berja sér dálítið á brjóst fyrir að hafa lagað frumvarpið að því leyti. Þegar við hlustum síðan á fulltrúa þess sama flokks réttlæta þessar endursendingar — við heyrðum eitt skýrasta dæmi þess þegar hv. þm. Jódís Skúladóttir var í Silfrinu á Ríkisútvarpinu fyrir rúmri viku þar sem hún vék orðum að stöðu þessa hóps, dálítið svona eins og til að segja að fólk ætti ekki að vera að kvarta of mikið, með leyfi forseta: „Færðu húsnæði, heilbrigðisþjónustu eða atvinnutækifæri? Það er ekkert víst. En það er líka fullt af innfæddum Grikkjum sem hafa ekki aðgang að því.“

Þarna gerði þingmaðurinn ekki bara lítið úr aðstæðum flóttafólks í Grikklandi og þeim gríðarlega aðstöðumun sem er á milli þess að vera jaðarsett og fátæk í eigin landi eða sem flóttamenn í öðru landi heldur þótti mér þingmaðurinn með þessu auk þess grafa allhressilega undan öllu sem hún og flokkssystkini hennar hafa sagt varðandi þá breytingu sem varð á frumvarpinu á milli útgáfna þar sem sjálfvirk endursending á fólki í þessari stöðu var tekin út. Finnst henni ekkert að því að fólk fari í slæmar aðstæður vegna þess að það séu hvort sem er einhverjir Grikkir í slæmum aðstæðum? Til hvers var þá verið að berjast fyrir þessum úrbótum á frumvarpinu?