Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  8. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að fá að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson skildi hann eftir varðandi einstaklinga sem sækja um vernd hér, koma hingað til lands eftir að hafa fengið veitta alþjóðlega vernd í öðrum ríkjum. Það vakti einmitt athygli mína og stuðaði mig að mörgu leyti að heyra hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jódísi Skúladóttur, opinbera þá skoðun sína að henni þyki í lagi að vísa fólki, börnum jafnvel, á göturnar í Grikklandi þar sem þau hafa ekki aðgang að vinnumarkaði, ekki aðgang að húsnæði, húsaskjól er grundvallarforsenda þess að við höfum líkamlegt veraldlegt öryggi, og ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þetta taldi hún í lagi vegna þess að við getum ekki hjálpað öllum. Þetta er ekki viðhorf sem ég vænti úr þeirri átt þar sem, líkt og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson benti á hér áðan, sá flokkur stærir sig akkúrat af því að hafa fengið ákvæði tekið út úr frumvarpinu sem átti að afnema með öllu heimild íslenskra stjórnvalda til að taka slík mál til efnismeðferðar hér á landi. Það er sem sagt ekki verið að leggja það til að sú heimild verði tekin út. Hins vegar er verið að leggja til að sú heimild verði holuð að innan að mörgu leyti og ég er svo sem búin að fara yfir það í nokkuð löngu máli hér.

Mig langar hins vegar að staldra aðeins meira við, áður en ég vind mér í næsta ákvæði í þessu frumvarpi, þessi tilvik, einstaklinga sem leita hingað til lands eftir að hafa fengið vernd í öðrum ríkjum. Við fyrstu sýn þegar maður heyrir þetta svona; þú ert búinn að fá stöðu flóttamanns, þú ert búinn að fá alþjóðlega vernd í einhverju ríki — ég skil alveg að það skjóti skökku við fyrir mörgum að fólk leiti þá lengra, leiti áfram t.d. til Íslands. Það er hins vegar svo að það eru alltaf sömu ríkin sem um er að ræða. Í þessum geira er gjarnan talað um þegar við erum að velta fyrir okkur hvers vegna fólk leitar til eins ríkis frekar en annars, akkúrat það sem hér hefur verið nefnt, svokallaða pull-faktora og push-faktora. Á íslensku eru það þættir sem ýta fólki eitthvert og svo þættir sem draga fólk eitthvert.

Því hefur verið haldið fram að sérákvæðin á Íslandi sem gilda um að það megi taka mál til efnismeðferðar þótt fólk hafi fengið vernd í öðru ríki séu einhvers konar aðdráttarafl. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða, hafandi áratugareynslu af þessum málaflokki, að það er ekkert sem bendir til þess að það sé ástæðan fyrir því að einstaklingar sem hafa fengið vernd í öðrum ríkjum sæki til Íslands. Hlutfallið hefur á tíðum, ekki alltaf, verið hærra hér á landi af þessum hópi heldur en öðrum, þeim sem koma og hafa ekki fengið vernd í öðrum ríkjum áður, en við getum einungis giskað á ástæðuna. Ég t.d. tel mun líklegri ástæðu vera þá annars vegar að þessir einstaklingar eru með skilríki. Til Íslands er erfitt að komast öðruvísi en með flugvél. Innan Evrópu er hægt að ferðast með því að fara upp í vörubíl, það er hægt að fara fótgangandi, það er hægt að húkka sér far, það er hægt að fara með ýmsum leiðum og það er hægt að komast óséður á milli ríkja nokkuð auðveldlega. Ég ætla að setja það samt innan gæsalappa, því sannarlega er það ekki auðvelt.

Að komast til Íslands án skilríkja er nánast ómögulegt. En einstaklingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd, þótt þau hafi ekki heilbrigðisþjónustu, ekki húsaskjól, ekki aðgang að menntun, ekki aðgang að vinnumarkaði, ekki aðgang að neinu nema ruslahaugunum, eru gjarnan með skírteini — ekki alltaf, það eru líka hindranir fyrir því. En þau eru iðulega með skilríki í höndunum. Þó að flóttamenn í Evrópu — þetta tel ég vera stærsta gallann við flóttamannakerfið í Evrópu — hafi ekki heimild til að setjast að annars staðar í Evrópu, séu föst í því ríki þar sem þau í rauninni lentu fyrst þá geta þau ferðast á þessum skilríkjum, þeim er heimilt að ferðast um Evrópu í allt að þrjá mánuði. Þetta gerir það að verkum að þau komast upp í flugvél til Íslands. Landfræðilegar og tæknilegar hindranir fyrir fólk til að koma til Íslands eru það miklar að það er allt sem bendir til þess að ástæðan fyrir því að það eru fyrst og fremst — það er ekki einu sinni fyrst og fremst, það er hærra hlutfall einstaklinga sem hafa fengið vernd í öðrum ríkjum sem sækja hingað til lands heldur en t.d. til nágrannaríkjanna — sé svo einföld vegna þess að öll ríki Evrópu taka þessi mál til skoðunar. Þó að við séum með eitthvert ákveðið ákvæði í lögum þá er framkvæmdin okkar strangari en í mörgum öðrum Evrópuríkjum. Það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé aðdráttaraflið sem dregur fólk til okkar. Ég ætla að biðja um að fá að fara aftur á mælendaskrá.