154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[18:03]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta svo skemmtileg umræða að ég er að reyna að draga hana á langinn eða afsaka mig í þeim efnum. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson fór ágætlega yfir fjöldamargar áskoranir þessarar atvinnugreinar sem komu ágætlega fram í hans máli hér og þetta frumvarp sem hér er til umræðu er auðvitað liður í að taka á ákveðnum þætti þeirra. Mig langar þess vegna til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála því orðavali mínu sem ég notaði í ræðu minni hérna áðan að þetta sé atvinnugrein í kreppu, og ef svo er, hvort það þurfi ekki í rauninni að endurhugsa grundvöll hennar með einhverjum hætti. Ef hann er hugsanlega sammála mér í því, ég gæti náttúrlega kannski nýtt þetta í annað andsvar en ég ætla að láta það fljóta með núna, þá með hvaða hætti? Nú er ég sem sagt bara að biðja hv. þingmann að hugsa dálítið stórt og breitt með okkur hérna inni, að nota þetta tækifæri. Er einhver sýn, langtímasýn þar sem við þurfum ekki að vera með bændur stöðugt í einhverri úlfakreppu og afkomuótta?