135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:13]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljótt að hafa það á samviskunni að þurfa að gera þingmenn í salnum mjög dapra í sinni. Ég sé á sumum að þeir eru ekki mjög daprir en hinir verða bara að þola það. Þetta hefur verið og er mín skoðun og ég sé ekki nokkra einustu ástæðu til að blanda því saman sem búið er að semja um á þingi fyrir mörgum árum eins og til dæmis Héðinsfjarðargöngum við verkefni sem er í burðarliðnum og er til umræðu. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að með einhverjum hætti hafi verið tekist á um það í þingsölum milli pólitískra flokka hvort ráðast ætti í þetta verkefni sem jarðgöngin á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar eru. Sú umræða er frá. Hún er búin þó svo ég geri mér alveg fullkomlega grein fyrir því að margir þingmenn hér inni og ekki síður fólk úti í samfélaginu hefðu gjarnan viljað snúa til baka úr því verki. Það er bara ekki til umræðu.