135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[18:11]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allar forsendur brostnar til að halda gjaldtökunni áfram, segir hv. þingmaður. Þær virðast nú ekki brostnar í samstarfsflokknum. Hann heldur sig fast við það, Sjálfstæðisflokkurinn, að halda beri áfram slíkri gjaldtöku.

Ég spyr hv. þingmann hvort Samfylkingin standi einhuga að baki málflutningi hv. þingmanns. Ég vil enn fremur spyrja hv. þingmann hvort hann geti litið á þetta sem skatt sem tekinn sé af fólki og fyrirtækjum, fólki og varningi sem um Hvalfjarðargöngin fara, sé í raun skattlagning sem ella væri innspýting í hagkerfið á Norðvesturlandi þar sem hagvöxtur hefur verið hvað minnstur síðustu árin.

Þegar ég byrjaði á þingi sagði ágætur þingmaður og reyndur við mig, þegar ég flutti gott mál, að þetta væri gott mál en það mundi taka mig tíu ár að koma því í gegnum þingið. Hann sagði að þingið væri íhaldssamt og tæki seint undir þingmannamál. Ég spyr hv. þingmann hvað hann sætti sig lengi við þessa baráttu. Er kannski þingmeirihluti fyrir málinu í þinginu. Ef stjórnarandstaðan er öll á því að þetta beri að fella niður er þá Samfylkingin tilbúin í þann dans að leggja niður gjaldið? Er hv. þingmaður tilbúinn að fylgja eftir frumvarpi um að fella niður gjaldið og greiða því atkvæði sitt í þinginu ef til þess kemur?