139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[14:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað og lýst áhyggjum sínum yfir þeim atburðum sem við fengum fréttir af í fjölmiðlum í morgun um að gerð hafi verið tilraun til að fara inn í tölvukerfi Alþingis með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Ég vil líka þakka hæstv. forseta fyrir þá munnlegu skýrslu sem hún hefur gefið og þær yfirlýsingar sem hún gaf jafnframt í lok máls síns um framhald málsins.

Ég vil engu að síður láta það koma fram sem skoðun mína að ég tel að það hafi verið misráðið að veita þingmönnum ekki upplýsingar um það sem hér átti sér stað strax í kjölfar atburðarins í byrjun febrúar á síðasta ári. Það er nefnilega þannig að skortur á upplýsingum getur leitt til þess að menn búi við falskt öryggi. Í þessu tilfelli hygg ég að það eigi við um flesta þingmenn að þeir upplifi það þannig að þeir búi við falskt öryggi í þessu efni. Ég tel mikilvægt í málum af þessum toga, þegar þau koma upp og ef þau koma upp, að allt sé gert til að upplýsa menn um við hvaða aðstæður við búum.

Ég tel líka mjög mikilvægt að fram fari fræðsla til þingmanna og starfsmanna þingsins um það hvaða reglur gilda um meðferð upplýsinga, tölvupósts, gagna og annars sem við erum að vinna með frá degi til dags. Það er mjög mikilvægt að við vitum nákvæmlega, því að fæst okkar sem hér störfum höfum sérþekkingu á tölvumálum, vitum ekki nákvæmlega hvert gögnin fara þegar þau eru farin af skjánum fyrir framan okkur og þetta er mikilvægt að upplýsa.

Ég tel líka mikilvægt eins og hér hefur komið fram að málið verði áfram til meðferðar, að forsætisnefnd taki þetta föstum tökum og rannsaki það í raun og veru til hlítar eins og hægt er af hálfu þingsins. Líka þarf að ræða við lögregluna hvort hægt sé að gera frekari rannsókn á málinu. Okkur er sagt að það sé fullrannsakað af hálfu lögreglunnar en mér finnst nauðsynlegt að lögreglan geri þá grein fyrir því gagnvart forsætisnefnd og yfirstjórn þingsins.