139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir til hæstv. forseta fyrir að koma þessum skýringum á framfæri og fyrir ágætan fund okkar þingflokksformanna áðan með hæstv. forseta þar sem okkur gafst tækifæri til þess að ræða þetta. En ég verð þó að segja og taka undir með þeim sem hér hafa talað að mér finnst það herfileg mistök að hafa ekki greint þingmönnum, hvort sem það eru formenn flokka, þingflokka eða forsætisnefnd, frá þessu á sínum tíma vegna þess að ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að öryggi og leynd fer ekki saman og með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að hér er verið að skapa okkur falskt öryggi. Ég verð að segja fyrir mig að mér er mjög brugðið vegna þessa og einmitt vegna þess að hér er, eins og sagt var hér af fyrri ræðumanni, um innrás á Alþingi að ræða. Ég sit oft ein á þeirri hæð sem við eigum skrifstofu á í þessu sama húsi seint að kvöldi þegar maður er að fylgjast með umræðum eða skrifa ræður eða undirbúa ræður og ég hef hingað til talið mig vera örugga þar vegna þess að ég hef hingað til talið að fylgst væri með aðgangi þeirra sem inn í þetta hús koma. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að það er beygur í mér núna eftir þetta. Mér finnst óþægilegt til þess að vita að svona alvarlegt mál hafi einungis verið rannsakað í eina viku, að enginn hafi verið spurður af þeim þingmönnum sem eiga skrifstofu á þessari hæð eða við á hæðinni fyrir neðan, að enginn hafi verið spurður um mannaferðir, gestakomur eða hvort þeir hafi orðið varir við eitthvað óeðlilegt. Og ég er mjög forvitin að heyra skýringar lögreglunnar og skýringar þeirra sem hafa lokið þessari rannsókn á þessum skamma tíma og eins skýringar á því af hverju okkur var ekki greint frá þessu. Eftir heilt ár lesum við um þetta í blöðunum og mér er gróflega (Forseti hringir.) misboðið vegna þess.