139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við eigum endilega að gera þetta allt saman með augun opin. Það er þess vegna sem lagaramminn verður að vera skýr, hann verður að vera þröngur og hann verður að vera þannig að eftirlit sé tryggt og aðstoð. Það þarf að vera alveg skýrt að þetta er eitt af þeim atriðum sem teymi sérfræðinga, sem fer í að aðstoða viðkomandi einstaklinga í þessari aðstöðu, þarf að hafa eftirlit með. Við nefnum það hér að það sé sjálfsagt að viðkomandi staðgöngumóðir fái greitt fyrir útlagðan kostnað, fyrir lækniskostnað, fyrir vinnutap eða eitthvað slíkt. Þetta er grundvallarforsendan í þessu, við megum aldrei gleyma að verið er að heimila þetta af velgjörð og velgjörð einni saman. Af hverju einhver finnur sig knúinn til þess að taka slíkt að sér — ég hef heyrt sögur frá mörgum konum sem hafa tekið þetta að sér. Líkt og ég sagði hér áðan ber ég óskaplega mikla virðingu fyrir þeim konum líkt og ég ber virðingu fyrir mörgum einstaklingum sem taka að sér að gera hluti sem ég persónulega mundi annaðhvort ekki þora að gera eða vilja gera en er nauðsynlegt að einhver geri. Þetta held ég að við verðum að hafa í huga. Hv. þingmaður nefndi mjög gott dæmi, það er þegar þú gefur úr þér annað nýrað. Það er ekki lítil gjöf, vegna þess að þú ert með því að stofna eigin lífi í hættu.

Virðulegi forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu. Ég vil þakka fyrir hana. Hún hefur verið afar góð, afar málefnaleg. Mér finnst gott að finna þann mikla stuðning sem þetta mál fær hér við fyrri umr. Ég skil vel efasemdir þeirra sem ekki hafa myndað sér skoðun og ég skil að þeir vilji (Forseti hringir.) fá tíma til að gera það. En ég vil hvetja okkur til dáða að ljúka þessu máli þannig að við getum komið þessum hlutum í skýran farveg.