144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

uppbygging innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

427. mál
[20:04]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Frumvarpið felur í sér að lögfest verði heildstæð stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða er varða náttúru Íslands. Markmiðið með frumvarpinu er að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um slíka uppbyggingu og viðhald á ferðamannasvæðum, ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum á Íslandi. Slík uppbygging þarf ávallt að hafa náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi enda er náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggist á.

Umræðan um ferðaþjónustu og ferðamennsku hefur verið fyrirferðarmikil að undanförnu og kallað hefur verið eftir stefnumótun hvað varðar uppbyggingu innviða sem snúa að náttúru landsins. Afar brýnt er að taka þetta málefni nýjum og föstum tökum, enda hefur fjöldi ferðamanna vaxið gífurlega hratt á undanförnum árum með tilheyrandi álagi á náttúru Íslands og sögustaði.

Kannanir hafa ítrekað sýnt að náttúran er það sem helst dregur erlenda ferðamenn til landsins og innlenda ferðamenn út um allt land. Þá hafa kannanir sýnt, hvað erlenda ferðamenn varðar, að næst á eftir náttúrunni vekur menning og saga landsins mestan áhuga.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur vaxið gífurlega hratt undanfarin ár og er nú orðinn einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Á sama tíma hefur ferðatíminn lengst. Hann hefst fyrr og teygir sig lengra fram á haustið. Samhliða því hefur orðið mikil aukning í vetrarferðamennsku og áhugi Íslendinga á útivist hefur stóraukist, enda stunda nú þúsundir manna náttúrutengda útivist að staðaldri, svo sem fjallgöngur, gönguferðir og reiðhjólaferðir.

Fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins eru jafnframt meðal dýrmætustu náttúruperla þess, oft og tíðum friðlýst svæði með hátt verndargildi auk þess sem mikilvægar menningarminjar laða að sér ferðamenn. Það er því afar nauðsynlegt að stjórnvöld móti skýra stefnu um nýtingu ferðaþjónustunnar á náttúru landsins og menningarlandslag og skipulag þeirra aðgerða sem ráðast þarf í.

Lega Íslands norður við heimskautsbaug og svöl sumur gera náttúru landsins viðkvæma. Gróðurlendi láta fljótt á sjá enda afar viðkvæm fyrir hvers konar átroðningi og þar sem vaxtatíminn er skammur tekur það gróðurinn langan tíma að jafna sig. Jarðvegur er að auki viðkvæmur og auðrofinn, meðal annars vegna eldvirkni, en hér á landi er mikið af ösku, vikri og öðrum áfoksefnum í jarðveginum. Vegna þessa er álag af völdum ferðamanna og náttúrunnar líklegra til að valda meiri skemmdum hér en í flestum öðrum löndum. Brýnt er því að ráðast í aðgerðir á ferðamannastöðum þar sem helstu náttúruperlur og menningarminjar er að finna en uppbygging innviða á þeim svæðum hefur ekki verið í samræmi við fjölgun ferðamanna og því hafa svæðin látið á sjá vegna aukins átroðnings.

Ekki er til heildstæð stefnumarkandi áætlun um vernd og uppbyggingu innviða á áningarstöðum ferðamanna og er þessu frumvarpi ætlað að bæta þar úr. Slík langtímaáætlun er mikilvæg til að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem ber að vinna, skilgreina fjárþörf, forgangsraða verkefnum, fylgja eftir framkvæmdum, tryggja hagkvæmni og vinna að skilgreiningu nýrra svæða. Vert er að nefna að í haust kynnti OECD umfangsmikla úttekt á stöðu umhverfismála í landinu. Þar var fjallað mikið um álag á náttúruna af ferðaþjónustunni og hvernig bregðast megi við því og samræma betur stefnumörkun ferðaþjónustu og umhverfismála. Er þetta frumvarp sem ég mæli fyrir hér mjög í þeim anda sem þar svífur yfir vötnum.

Í frumvarpinu eru hugtökin „ferðamannaleið“, „ferðamannastaður“ og „ferðamannasvæði“ skilgreind. Með ferðamannaleið er átt við leið sem tengir saman ferðamannastaði. Ferðamannaleiðir geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir. Ferðamannastaður er sá staður sem hefur aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru hans og sögu og sem ferðamannasvæði er það landsvæði skilgreint sem ferðamenn sækja vegna náttúru þess og sögu og tekur til fleiri en eins ferðamannastaðar. Sem dæmi má nefna að Friðland að Fjallabaki gæti verið skilgreint sem eitt ferðamannasvæði, Landmannalaugar og Hrafntinnusker, ákveðnir ferðamannastaðir innan þess svæðis og gönguleiðin Laugavegur væri þá skilgreind sem ferðamannaleið sem tengir þessa staði. Ég tek þetta bara sem dæmi af handahófi til útskýringar.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að umhverfisráðherra, í samráði við þá ráðherra sem fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál, leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun til 12 ára. Í þeirri áætlun er sett fram framtíðarsýn á uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn og er sú stefna unnin í samráði við fyrrnefnda ráðherra. Landsáætlun tekur til verndaraðgerða, öryggismála, uppbyggingar og viðhalds innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar og verndar menningarminja á ferðamannasvæðum, ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í landinu.

Í kjölfar samþykktar 12 ára stefnumarkandi áætlunar er gert ráð fyrir í frumvarpinu að unnar verði þriggja ára verkefnaáætlanir. Þær áætlanir útfæra nánar verkefni 12 ára áætlunarinnar, forgangsraða einstökum verkefnum og skilgreina ábyrgðaraðila þeirra. Verkefnaáætlanir rúmast þannig innan ramma 12 ára áætlunarinnar og eru lagðar fram á Alþingi í formi þingsályktunar.

Í frumvarpinu er kveðið á um skipun verkefnisstjórnar sem hefur umsjón með tillögunni um stefnumarkandi áætlun til 12 ára og þriggja ára verkefnaáætlun. Um er að ræða stóran hóp skipaðan fulltrúum þeirra opinberu stofnana sem hafa umsjón með ferðamannastöðum, ferðamannasvæðum og ferðamannaleiðum, fulltrúum annarra opinberra stofnana sem málið snertir auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka ferðaþjónustunnar, Landssamtaka landeigenda, Ferðamálasamtaka Íslands, útivistarfélaga, háskólasamfélagsins og náttúruverndarsamtaka. Frumvarpið kveður á um að verkefnisstjórn skuli viðhafa ákveðið verklag við vinnu sína auk þess að lögbundið er samráð við opinberar stofnanir, stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga, félagasamtök og aðra hagsmunaaðila auk almennings. Jafnframt á verkefnisstjórn að halda opinn kynningarfund um drög að tillögum sínum.

Frumvarpið nær því til skipulags innviða í ferðamennsku og er opinber stuðningur óháður eignarhaldi. Gert er ráð fyrir að svæði í eigu hins opinbera, þar með talið innan þjóðlendna, eigi sjálfkrafa aðild að áætluninni og sveitarfélög geri tillögur um þau svæði sem staðfest eru innan marka þeirra, eru í einkaeigu og kjósa að eiga aðild að áætluninni. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið í landinu og því verður að teljast eðlilegt að þau séu miðlægur aðili í ákvarðanatöku um hvaða svæði fari inn á áætlunina. Í því samhengi verður þó að benda á að ekkert landsvæði í einkaeigu mun falla undir áætlunina nema viðkomandi landeigandi óski þess.

Því tengt vil ég nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerðir verði samningar við landeigendur einkalands sem hafa samþykkt að láta svæði í sinni eigu falla undir áætlunina, þiggja opinberan stuðning og halda löndum sínum opnum galdfrjálsri umferð eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum og reglugerðum. Landeigendum er þó ávallt heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu. Eingöngu er verið að reyna að tryggja að ekki verði farið í sjálfstæða innheimtu aðgangsgjalda á þeim svæðum þar sem ríkið kemur að uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til að stuðla að því að framkvæmdir sem styrktar eru af almannafé nýtist í almannaþágu.

Í þessu sambandi finnst mér mikilvægt að taka fram, hvað varðar greiðsluþátttöku ríkissjóðs, að eingöngu er hægt að skuldbinda ríkissjóð til greiðslu framlaga með afgreiðslu fjárlaga. Ekki er því hægt að gera samninga við landeigendur einkalands fyrr en fyrir liggur ákvörðun Alþingis um fjárveitingar.

Að lokum er í ákvæði til bráðabirgða kveðið á um að ráðherra skuli innan sex mánaða frá samþykkt frumvarpsins, í samráði við aðila sem eiga fulltrúa í verkefnisstjórn og þá ráðherra sem fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál, leggja fram og birta opinberlega áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannaleiðum, ferðamannastöðum og ferðamannasvæðum sem gildir til 1. janúar 2018. Ljóst er að þörf fyrir uppbyggingu er gríðarlega mikil og ekki er hægt að bíða þangað til fyrsta verkefnaáætlun hefur verið samþykkt. Ef við gerum ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar um þriggja ára verkefnaáætlun taki gildi árið 2017 með samþykki Alþingis er ljóst að fjármunir fara ekki inn á áætlunina fyrr en við fjárlagagerð það ár eða árið 2018. Framkvæmdir á grundvelli áætlunarinnar gætu því í fyrsta lagi hafist þá. Ég tel að til að geta tryggt verndun viðkvæmra náttúru- og menningarminja sem liggja undir skemmdum sökum ágangs ferðamanna sé nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir sem fyrst.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.