144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

virðisaukaskattur.

411. mál
[23:14]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta þarfa mál hér, en eins og hann kom vel inn á er íþróttahreyfingin mjög mikilvæg í okkar samfélagi. Þar fer gríðarlega mikið sjálfboðaliðastarf fram og margir gríðarlega öflugir sjálfboðaliðar hafa lagt sig mikið fram við það og huga mikið að uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem við erum kannski farin að sjá í árangri íþróttamanna okkar sem ná árangri úti um allan heim. Mögulega má þakka þessum íþróttamannvirkjum töluvert af þeim árangri og öllu því sjálfboðaliðastarfi sem hefur verið í kringum þá einstaklinga.

Einn af þeim góðu sjálfboðaliðum er Jónas Þórhallsson í Grindavík sem hefur viðrað þá hugmynd oft við mig að hægt sé að byggja upp mannvirkin með því að fella niður virðisaukaskattinn. Við þekkjum að skattkerfinu er beitt til að aðstoða mikilvæga starfsemi eins og björgunarstarfsemina og annað slíkt, en björgunartæki eru undanþegin virðisaukaskatti.

Ég fagna því að málið komi núna samhliða því að endurskoðun á virðisaukaskattskerfinu fer fram og á skattkerfinu í heild sinni. Mikilvægt er að það fari saman en eins og þingmaðurinn kom inn á er þetta svolítið tæknilega flókið mál og geta verið mörg flækjustig þar. Erfitt er að fara með undanþágur, það er mjög vandmeðfarið. Þar geta komið inn samkeppnissjónarmið o.fl. Í íþróttamannvirkjum og íþróttastarfsemi er starfsemin orðin fjölbreytt og starfsemi íþróttafélaganna skarast kannski oft við aðra starfsemi.

Ég vildi aðallega þakka þingmanninum fyrir og vona að málið gangi vel hér í störfum þingsins.