146. löggjafarþing — 62. fundur,  3. maí 2017.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[16:45]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að grípa boltann þar sem hv. þm. Jóna Sólveig Elínardóttir skildi við hann, þ.e. að fá svar frá hæstv. ráðherra varðandi ferðakostnaðinn. Eins og staðan er núna felst í þessu mikil mismunun, þannig að ef við náum að laga þann galla á kerfinu væri það mjög gott fyrir marga.

Ég vil taka undir það sem fleiri hafa sagt í dag að það urðu mér viss vonbrigði þegar ég sá fréttir af því að greiðsluþátttakan væri raunverulega ekki að hámarki 50 þús. kr. eins og ég skildi afgreiðslu velferðarnefndar síðastliðið vor, en þá átti ég sæti í þeirri nefnd, á það ekki lengur. Þetta nýja greiðsluþátttökukerfi er að sjálfsögðu skref í rétta átt. Ég vil ekki kenna einhverjum einum um að við séum ekki komin lengra, að kerfið sé ekki betra en það er, vegna þess að við höfum náttúrlega í mörg ár verið að reyna að bæta heilbrigðiskerfið okkar og greiðsluþátttakan er partur af því. Hér hafa setið margar ríkisstjórnir. Þeir flokkar sem hafa verið til í meira en fimm ár hafa allir verið í ríkisstjórn í áratugi.

Það var gott að heyra í ræðu hæstv. ráðherra, og ég trúi því og efast ekki um orð hans, að hann hefur ríkan vilja til þess að gera betur. Hér hafa komið fram atriði sem ég veit að hann tekur til ítarlegrar skoðunar og reynir sitt allra besta.

Mig langar samt að lokum að spyrja um geðheilbrigðisáætlunina. Er parturinn um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu tekinn í greiðsluþátttökukerfið? Er (Forseti hringir.) vísað í það í geðheilbrigðisáætluninni? Er það partur af henni að einhverju leyti? Það væri gott að fá að vita ef það er hægt.