149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðar í dag er síðari umræða um samgönguáætlun, eitt mikilvægasta plagg þingsins. Þegar sagan er skoðuð má sjá að ýmislegt hefur breyst, en einnig má segja að sumt hafi lítið breyst. Árin 1920–1960 lögðu menn áherslu á tengingu byggða, gerð sumarvega og brúun vatnsfalla. Síðan var farið í að byggja vegi upp úr snjó, eins og kallað er, og lögð áhersla á bundið slitlag.

Nálgun manna við þessa vinnu hefur eðlilega þróast. Síðan á tíunda áratugnum hefur verið unnið eftir markmiðsáætlun og framkvæmdamarkmið skilgreind. Vinnubrögð eru sífellt markvissari og markmiðssetning skýrari. Markmið samgönguráðs við undirbúning áætlunar nú eru skýr og skilgreind með verkefnum. Má þar nefna markmið um greiðar samgöngur. Þar er horft til samgöngukerfisins sem heildar, hjólreiða, flugleiðsögustefnu, almenningssamgangna, upplýsingagjafar til ferðamanna og fleiri markmiða um öryggi í samgöngum. Raunar eru öryggismarkmiðin yfir og allt um kring því að takist okkur að fækka slysum er miklu náð. Einstaklingar og samfélagið hafa tapað of miklu þar.

Markmiði um hagkvæmar samgöngur er vel fylgt eftir. Í dag er sjálfsagt að setja fram markmið um sjálfbærar samgöngur. Það rímar við aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmið um jákvæða byggðaþróun eru okkur öllum mikilvæg svo áform um öflugt samfélag um allt land náist. Dæmi um verkefni til að ná því markmiði er skilgreining vinnusóknar- og skólasvæða og niðurgreiðsla flugfargjalda.

Hæstv. forseti. Eins og öllum er kunnugt eru verkefnin ærin, en áætlunin sem við ræðum í dag er sett fram á skýrari formi en áður og er tengd öðrum opinberum áætlunum. Annað sem við skulum hafa í huga er að samgönguáætlun 2019–2033 er nú lögð fram fullfjármögnuð og í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun. Það er gott.

Höldum okkur við fagleg vinnubrögð um leið og við finnum leiðir til að vinna hraðar og framkvæma meira.