149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef sennilega fengið hugrenningatengsl í ljósi síðustu ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, en ég ætlaði einmitt að greina frá þeim farvegi sem hv. fjárlaganefnd er með málefni Íslandspósts í. Það er mikilvægt að við gerum greinarmun á heimild og lánveitingu. Til upprifjunar þá kom fram tillaga undir lok 2. umr. fjárlaga um að heimila fjármála- og efnahagsráðherra að leggja Íslandspósti ohf. til lánsheimild og hlutafé, viðbót við 5. gr. og 6. gr. Þá lagði meiri hlutinn það til að heimildin yrði afgreidd og samþykkt með þeim skilyrðum að ef til kæmi bæri ráðherrum að upplýsa bæði hv. fjárlaganefnd og hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi áður en nýttar væru þær lána- og framlagsheimildir sem gerð var tillaga um. Þannig samþykkti þingið fjárlög. Auk þess lagði nefndin áherslu á upplýsingar um sviðsmyndir um framtíðarhlutverk félagsins, greinargóðar upplýsingar um einstaka starfsemisþætti og yfirlit um hagræðingaraðgerðir og framtíðarsýn.

Hv. fjárlaganefnd var áfram um að setja málið í frekari farveg. Í kjölfarið setti formaður nefndarinnar sig í samband við ríkisendurskoðanda, sem er trúnaðarmaður Alþingis við eftirlit með fjármálum ríkisins, um vinnu stjórnsýsluúttektar í samræmi við 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda. Þar verði lögð áhersla á að greina m.a. fjárhagslega aðgreiningu, en rekstrinum er skipt í þrjár meginstoðir; einkarétt innan alþjónustu, samkeppni innan alþjónustu og samkeppni utan alþjónustu. Nefndin óskar m.a. eftir að ríkisendurskoðandi leggi mat á aðgreiningu rekstrarins og hvernig fjárfestingar félagsins á undanförnum misserum greinast eftir þessum meginstoðum.

Í öðru lagi snýr beiðnin að framtíðarsýn félagsins í því (Forseti hringir.) breytta rekstrarumhverfi þar sem einkaréttur verður afnuminn með öllu og alþjónustukvöðin hjá ríkissjóði. Á fyrsta fundi sínum eftir áramót, 15. janúar sl., samþykkti síðan fjárlaganefnd, öll nefndin, formlega þá ákvörðun að ríkisendurskoðandi færi í þessa vinnu (Forseti hringir.) og væntum við skýrslu frá honum á vormánuðum.