151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

skimun fyrir krabbameini.

486. mál
[14:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að halda því fram að þetta séu skemmtiferðir, að fara í leghálskrabbameinsskoðun eða skimun, en það er eftir sem áður þannig að kvensjúkdómalæknar geta tekið þessi sýni og verið þar með partur af þessu neti, það er mikilvægt. Það gætti misskilnings um þetta á tímabili en það er algerlega skýrt.

Mig langar líka að segja að á fjárlögum þessa árs eru 70 milljónir til að undirbúa og annast tækjakaup o.s.frv. varðandi ristil- og endaþarmsskimanir þannig að hægt er að byrja á því.

Mig langar einnig að segja frá því sem verið hefur mikið í umræðunni, að Landspítalinn fékk erindi frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í júlí þar sem spurt var hvort Landspítalinn gæti tekið að sér að lesa úr þessum sýnum. Heilsugæslan fékk svar um það í ágúst að Landspítalinn sæktist ekki eftir því verkefni. Þá var komið að því að við fyndum aðrar leiðir og niðurstaðan varð þessi danska rannsóknastofa sem er á heimsmælikvarða og les úr sýnum fyrir bæði Svía og Dani og fleiri. Það skiptir afar miklu máli að átta sig á því að við gerum ekki minni kröfur um öryggi fyrir íslenskar konur en konur í Evrópu. En svo hefur það komið fram í fjölmiðlum að einstakir yfirlæknar hafa stigið fram á vegum og á vettvangi Landspítala og talað um að Landspítalinn geti vel annast þennan úrlestur. Þess vegna hef ég skrifað til Landspítala, gerði það í gær, til að óska eftir upplýsingum um hvort sú staða hefði breyst og hvað þyrfti þá til. Samningurinn við Hvidovre er til þriggja ára, uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. En það er staðreynd að Landspítalinn var beðinn um að kanna möguleika á því að taka þetta að sér en varð ekki við þeirri ósk og þá þurftum við að leita annarra leiða með heilsu kvenna að leiðarljósi.