151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

ferðakostnaður vegna tannréttinga.

521. mál
[15:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að það er örlítið erfitt að einbeita sér að umræðuefninu eftir þær stóru fréttir sem voru að berast. En ég vil þakka hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir svarið. Ég tek undir að þetta hefur auðvitað verið mikið bætt og margt hefur verið gert. En í mínum huga snýst þetta í rauninni ekki um alvarleika sjúkdómsins þótt auðvitað vilji maður sjá aukinn stuðning við fólk sem glímir við erfiða sjúkdóma. Með mikilli virðingu fyrir því ágæta fólki þá breytir það ekki því að staða þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins er lakari gagnvart því að geta sótt þjónustu. Það er einfaldlega dýrara fyrir það að sækja þessa þjónustu. Það er í raun kannski stóra spurningin í þessu hvort við viljum jafna aðstöðumun þeirra sem búa á þeim svæðum þar sem þessi þjónusta er ekki til staðar, því að sem betur fer er hún ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur hægt að sækja hana víðar, eða ekki. Ég hef mikinn skilning á því að það þarf að vera einhver regla á því og eitthvert skipulag í kringum það. En það breytir því ekki að alla jafna þurfa t.d. börn í tannréttingum að hitta tannréttingasérfræðinginn á sirka sex vikna fresti til að fara í tékk. Það er gríðarlega mikill kostnaður að leggja á fjölskyldur að fara suður á sex vikna fresti í jafnvel nokkur ár og því hefði ég náttúrlega viljað að svar hæstv. ráðherra væri annað. En ég fagna því samt sem áður að hún sé öll af vilja gerð og að verið sé að skoða þetta. Það breytir því ekki að ég held að við þurfum að gera betur.