152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:18]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við hv. þingmaður vorum þarna og þetta er mikilvægt mál. Ég vil nú nefna það að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra setti þessi mál á dagskrá hér á síðasta kjörtímabili með frumvörpum sínum um farsæld barna sem nutu hér þverpólitísks stuðnings og við eigum eftir að sjá innleiðingarferli þeirra fram undan. En ég er ekki í nokkrum vafa um að sú hugmyndafræði sem birtist í þeim lögum á eftir að verða okkur öllum til farsældar, ekki bara börnunum í landinu, vegna þess að hún snýst um að grípa börnin fyrr og það er auðvitað algjört lykilatriði.

Ég nefndi líka á þessum fundi hvað við gerðum á síðasta kjörtímabili, sem var að lengja fæðingarorlof og hækka greiðslur til foreldra, sem er annað mikilvægt skref til að bæta hag barna og draga úr fátækt barna og fjölskyldna, því að þetta er auðvitað nátengt. Ég nefndi líka barnabætur sem við hækkuðum á síðasta kjörtímabili. Ég held að það sé full ástæða til að skoða betur það kerfi og hvernig við teljum að það nýtist sem best fjölskyldunum í landinu. En allt eru þetta lykilatriði til að tryggja það sem ég vil trúa að við séum öll sammála um, sem er að öll börn fái jöfn tækifæri. Það eru vissulega fleiri atriði. Ég get nefnt tannlækningar barna, sem ráðist var í í tíð vinstri stjórnarinnar 2009–2013 að gera gjaldfrjálsar. Áfram var bent á á þessu málþingi að það skipti verulegu máli hvernig slíkur fjárhagslegur stuðningur væri útfærður, það væri stundum þannig að ef sækja þyrfti um stuðninginn væri einfaldlega ekki sótt um hann. Þetta fannst mér mjög merkilegt atriði og við þurfum að fara yfir þann stuðning sem við veitum. Ríkið steig til að mynda inn núna vegna heimsfaraldurs með sérstaka tómstundastyrki í þágu tekjulægri barna. Það tók tíma að finna bestu leiðina til að útfæra þá en á endanum nýttust þeir vel. Þannig að við þurfum líka að huga að því að þær fjárveitingar sem við setjum í þetta nýtist með sem bestum hætti, því að ég er ekki í nokkrum vafa og er sammála hv. þingmanni um að þetta er fjárfesting.