152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nei, ég var einmitt ekki að kvarta undan því að það vantaði markmið. Ég var að benda á varðandi markmiðið um samdrátt í nákvæmlega sömu losun, ekki brotið niður á geira heldur stóra talan um 55% markmiðið sem birtist á bls. 322, að á bls. 277 er hægt að reikna það upp í 14% samdrátt, markmið um samdrátt í losun á nákvæmlega sama sviði. Það skeikar næstum ferföldu innan sama skjals á vegum sömu ríkisstjórnar sem segist vera með sama metnaðinn en er ekki búin að samtvinna loftslagsmálin nógu vel til að það endurspeglist í þessu eina skjali sem við erum með til umfjöllunar. 2025 er árið sem við þurfum að ná hápunkti og fara að lækka losun á heimsvísu og svona handarbakavinnubrögð eru ekki það sem við viljum sjá á þeim tímapunkti.

Mig langar hins vegar að spyrja um markmið um orkuskipti í samgöngum sem voru hér til umræðu fyrr í dag og enn sem komið er er að margra mati, m.a. þess sem hér stendur, of mikil áhersla á að skipta einfaldlega mótorum út í farartækjunum en ekki að t.d. fækka bílum eða gera annað sem hægt er að gera til að draga úr umferðarmagni og þar með fækka eknum kílómetrum. Að breyta ferðavenjum köllum við þetta. Það er kafli í fjármálaáætluninni um sjálfbæra fjármögnun grænna verkefna þar sem er ekkert talað um almenningssamgöngur t.d., sem er eitthvert mest borðleggjandi fjárfestingarverkefni sem hægt væri að ráðast í til þess akkúrat að breyta ferðavenjum og ná fram miklu víðtækari (Forseti hringir.) grænni umbyltingu heldur en einfaldlega að taka alla bensínbíla og breyta þeim í rafmagnsbíla. (Forseti hringir.) Það gefur líka fólki aukið frelsi til að velja sér ferðamáta. Af hverju er ekki aukin áhersla á almenningssamgöngur í þessu?