Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Fylgdarlaus börn á flótta eru einn viðkvæmasti hópur samfélagsins. Börnin koma ein til landsins og tala oft einungis móðurmál sitt en ekki ensku. Þau birtast ein á flugvellinum, allt frá því að vera 12 ára gömul. Þau hafa ferðast langa leið án forsjáraðila eða einhvers fullorðins sem ætlar sér að bera ábyrgð á velferð barnsins. Þessi börn verða því á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Börnin koma hingað, ekki vegna þess að þau langi það eða að þau óski eftir því. Nei, þau eru send af fjölskyldu sinni sem vill koma þeim í örugga höfn svo þau séu örugg þó að það sé ekki hjá fjölskyldu sinni. Barnið er þá eitt í nýju landi, með nýju tungumáli, venjum, menningu og alveg einsamalt. Þessi börn þurfa mikinn stuðning frá samfélaginu. Það er til frábært fólk sem ákveður að gerast fósturforeldrar og taka að sér fylgdarlaus börn. Það er mjög mikilvægt að við styðjum þá fósturforeldra mjög vel þar sem það getur tekið mislangan tíma fyrir börn að aðlagast.

Fyrir skemmstu barst mér svar frá dómsmálaráðherra við fyrirspurn minni um fylgdarlaus börn á flótta. Í svari hans segir að á síðustu níu árum hafi um 178 einstaklingar komið til landsins sem börn. Það sem mér þótti merkilegast við svar dómsmálaráðherra var í tengslum við fjölskyldusameiningu en 55 börn hafa á síðastliðnum níu árum fengið vernd en einungis 19 þeirra hafa fengið fjölskyldusameiningu. Mér þykir mikilvægt að þetta komi fram því að stundum er talað um þessi börn eins og þau mæti hingað til þess eins að draga fjölskyldu sína hingað. Það er engin vissa fyrir því að börnin fái fjölskyldur sínar nokkurn tímann til landsins og fjölskyldusameining felur einungis í sér að sameinast foreldrum en ekki systkinum. Það er varla hægt að kalla þetta fjölskyldusameiningu. Sinnum þessum börnum rétt og vel og tökum á fordómum sem beinast að fólki og börnum á flótta.