Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Það var mikil umræða í samfélaginu og hér á þingi í síðustu viku í tengslum við flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-Sif, og var víða komið við í þeirri umræðu. Sá sem hér stendur hefur talað fyrir því að efla eftir öllum mögulegum leiðum getu Landhelgisgæslunnar til að sinna leitar- og björgunarstörfum hér á landi og á hafsvæðinu í kringum landið, bæði innan íslensku efnahagslögsögunnar og á því svæði sem íslensk stjórnvöld hafa tekið að sér við leit og björgun í Norður-Atlantshafi, á hafsvæði sem nær langt út fyrir íslensku efnahagslögsöguna, svæði sem er 19 sinnum stærra en Ísland eða um 1,9 milljónir ferkílómetra. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að íslenska efnahagslögsagan er tæpir 800 þúsund ferkílómetrar.

Á undanförnum árum hafa verið stigin mörg stór skref í uppbyggingu Landhelgisgæslunnar, TF-Sif kom 2009, Þór skömmu síðar og fyrir rúmu ári kom Freyja með heimahöfn á Siglufirði, allt gríðarlega öflug og mikilvæg skref í uppbyggingu þeirrar getu sem er gríðarlega mikilvægt að Íslendingar búi yfir í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Ég hef einnig talað mjög fyrir því að við eigum gott samstarf við vinaþjóðir; Dani, Bandaríkjamenn, Norðmenn, lönd innan NATO, um sömu heimssvæði. Við þurfum að eiga í góðu samstarfi, þar held ég að mikil tækifæri séu til staðar. Við höfum einnig eflt getu björgunarsveitar Landhelgisgæslunnar, þyrlubjörgunarsveitarinnar, og eigum nú þrjár þyrlur. Það er samt umtalsvert minna en þegar Bandaríkjamenn yfirgáfu landið 2006 með sínar fimm þyrlur, getan er minni þótt byggst hafi upp og þó að við höfum lagt mikið fjármagn í þetta á undanförnum árum.

Það sem ég var kannski ánægðastur með í síðustu viku var að við vorum að ræða þessi mál, leit og björgun, sem hafa fengið allt of litla umfjöllun hér á þinginu, þessi stóri málaflokkur sem snýr að hagsmunum er varða þjóðaröryggi.