Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Umgjörð sjókvíaeldis á Íslandi fær algjöra falleinkunn í kolsvartri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom fyrir augu þingsins í gær. Aldrei áður hefur Ríkisendurskoðun gert jafn margar athugasemdir í sinni skýrslu og myndin er sannarlega kolsvört. Eftirlit og stjórnsýsla í sjókvíaeldi er veikburða og brotakennd og lagabreytingum til úrbóta hefur ekki verið fylgt eftir. Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinnur gegn því að auðlindin skili hámarksávinningi fyrir ríkissjóð hafa fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Leyfum til sjókvíaeldis hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og jafnvel dæmi um að uppbyggingin skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða. Hér er sum sé komin staðfesting á áhyggjum þeim sem hafa verið viðraðar hér á Alþingi og úti í samfélaginu af hálfu náttúruverndarsamtaka. Sjókvíaeldi hefur vaxið stjórnlaust og veikburða viðleitni til að skapa skárri lagaumgjörð er líka á ábyrgð Alþingis, svo það sé sagt hér, herra forseti. Þingmenn verða þar líka að bera ábyrgð.

Þrátt fyrir veika lagaumgjörð sem samþykkt hefur verið hér á þinginu er varla farið eftir þeim lögum sem hafa verið sett. Grundvallarstofnunum á borð við Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun er falið veigamikið hlutverk í þessum málaflokki í vöktun, mælingum og rannsóknum en rauði þráðurinn er sá að þessar mikilvægu stofnanir eru undirmannaðar og allt of fjárvana til að sinna sínum lögbundnu hlutverkum. Þar með bætast þær í hóp ríkisstofnana sem einfaldlega geta það ekki vegna fjárskorts.

Hæstv. matvælaráðherra brást vel við í fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Hennar viðbrögð voru góð þar sem hún sagði að mikilvægt væri að taka þessa alvarlegu gagnrýni til sín og bregðast hratt við. Það var líka ljóst af viðbrögðum hæstv. matvælaráðherra, þótt hún hafi farið pent í það miðað við dökka skýrslu, að hún tók við vægast sagt skelfilegu búi frá forvera sínum, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem virðist ekki hafa gert neitt af nokkru viti til að styrkja umgjörðina í kringum þessa viðkvæmu atvinnugrein. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hæstv. matvælaráðherra til dáða og að vera í góðu sambandi við þingið og þingnefndir (Forseti hringir.) og ég leyfi mér að minna á nokkrar af þeim 23 tillögum Ríkisendurskoðunar til úrbóta sem geta komið fljótt til framkvæmda.