Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Heill og hamingja Íslendinga er okkar meginverkefni, með tilbrigðum. Tölum um lýðheilsu og það sem kann að ógna lýðheilsu. Við fögnum því að vera ofarlega á lista yfir þjóðir í grænni orkuframleiðslu. Við höfum gefið út leyfi til að virkja ekki bara fallvötnin heldur jarðvarmann víða um land; Þeistareyki, Kröflu og fjölmörg svæði í kringum okkur. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun fengum við fulltrúa frá Umhverfisstofnun og frá Reykjavíkurborg og fleiri aðilum til að varpa ljósi á áhyggjuefni margra sem lýtur að útblæstri bíla og afleiðingum notkunar nagladekkja á öndunarfæri okkar og heilsu. En ég vék að öðrum þætti sem mér finnst vera mikilvægt að ræða um og er sú ágæta virkjun jarðvarmans við borgarhliðið í Reykjavík, á Hellisheiði, sem er með þeim annmörkum að stingi maður höfðinu þar inn í brennisteinsgufurnar væri maður dauður á innan við mínútu og í tilteknum vindáttum þá blæs þessum gufum yfir svæðið þar sem 70% landsmanna búa og sömuleiðis frá Nesjavallavirkjun. Eitthvað hefur verið gripið til varna á Hellisheiðarsvæðinu en þeir ætla að reyna að klára sín mál þarna á Nesjavöllum kringum 2030. Eftirlitið með þessu fer einhverra hluta vegna, með fullri virðingu fyrir því að dreifa störfum og stofnunum um landið, hins vegar fram á Selfossi. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands sér um að gæta þess að ekkert fari úr böndunum hérna. Ég legg til að við tökum til endurskoðunar lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, færum eftirlitið hingað þar sem tveir þriðju þjóðarinnar búa að lágmarki (Forseti hringir.) og tökum okkur á í þessum efnum vegna þess að okkur stafar hætta af slíkum gufum. Það fellur á gull og silfur, tækjabúnað og okkur sjálf.