Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

fundarstjórn forseta við atkvæðagreiðslu.

[14:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Forseta rekur væntanlega minni til þess að fyrir rétt rúmlega hálftíma gerði ég grein fyrir atkvæði mínu varðandi dagskrártillögu sem hér var til afgreiðslu en rétt undir lok atkvæðaskýringar minnar bað ráðherra um að sér yrði bætt við í atkvæðaskýringu. Ég man ekki til þess að forsetar hafi leyft þetta áður, að þingmenn bæti sér á mælendaskrá til að gera grein fyrir atkvæði er eitthvað sem þarf að gerast áður en fyrsta atkvæðaskýringin byrjar.

Ég velti því fyrir mér hvort þessi liðlegheit stafi af því að ráðherrann er samflokksmaður forseta eða hvort forseta þyki bara svona mikilvægt að ráðherra fái að koma fýlubombum frá sér þegar honum líður illa undan því að hans frumvörp séu látin bíða vegna þess að stjórnarliðar vilja þrjóskast áfram gegn því að þvingað verði í gegn útlendingafrumvarpi sem ekki hefur verið aðgætt hvort standist stjórnarskrá eða mannréttindaskuldbindingar.

Alltént geri ég athugasemd við þessa fundarstjórn forseta vegna þess að þarna voru fordæmalaus liðlegheit gagnvart samflokksmanni, eitthvað sem ég hef aldrei séð áður.