Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þar sem við voru staddir áður en fundi lauk í gær var í umfjöllun um verndakerfið á Grikklandi. Aðstæður flóttafólks á Grikklandi hafa verið gagnrýndar árum saman og gildir þar einu hvort um er að ræða einstaklinga sem hafa fengið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd eða fólk sem enn er í umsóknarferli. Munurinn á þessum tveimur hópum er sá að fólkið sem enn er í umsóknarferli eða leitar til Íslands er ekki vísað aftur til Grikklands en því fólki sem hlotið hefur alþjóðlega vernd í Grikklandi vísa íslensk stjórnvöld til baka án þess að taka mál til efnislegrar meðferðar. Þetta er eitthvað sem er ekki alsiða í Evrópu. Ísland gengur þarna lengra en mörg Evrópuríki. Til dæmis hefur stjórnarskrádómstóll Þýskalands komist að þeirri niðurstöðu að það stríði gegn mannréttindum að senda fólk aftur í þær aðstæður sem grísk stjórnvöld bjóða upp á. Af vanefnum og vanmætti geta þau ekki tryggt mannsæmandi aðstæður fyrir fólk þó að það hafi fengið umsókn um alþjóðlega vernd samþykkta þar í landi.

Þar sem ég lauk máli mínu í gærkvöldi vorum við að fjalla um það takmarkaða aðgengi að heilbrigðisþjónustu sem flóttafólk býr við og þar kristallast náttúrlega sá vandi að það er ekki hægt að lesa bara lagabókstafinn og segja að vegna þess að grísk lög mæli fyrir um jafnan aðgang flóttafólks og grískra ríkisborgara að heilbrigðiskerfinu þá sé staðan bara jafn góð. Reyndin er sú, og þetta kemur skýrt fram í skýrslu Rauða krossins, að raunverulegt aðgengi flóttafólks að heilbrigðiskerfinu er allt annað og miklu verra en þeirra sem njóta grísks ríkisfangs. Rauði krossinn klykkir út með, með þennan kafla, þeim orðum að íslensk stjórnvöld geti ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að raunveruleikinn sé þessi. Það hafa íslensk stjórnvöld hins vegar gert og það munu þau halda áfram að gera ef það frumvarp sem við ræðum hér í dag verður samþykkt og verður að lögum.

Mig langaði að halda hér áfram í umfjöllun um skýrslu Rauða krossins vegna þess að þar er líka fjallað um aðgengi að húsnæði. Aftur kveða grísk lög á um jafnan rétt flóttafólks til félagslegs stuðnings og þar á meðal húsnæðis. En þá kemur framkvæmdin inn aftur. Í reynd er það nefnilega hins vegar þannig að flóttafólk stendur frammi fyrir mun erfiðari hindrunum en heimamenn sem felast t.d. í mikilli skriffinnsku innan stjórnsýslunnar, skorti á úrræðum á vegum hins opinbera — það er nú kunnuglegt stef að það skorti húsnæði á viðráðanlegu verði og félagslegu úrræðin séu minni en þau þyrftu að vera — og því að lögin sem kveða á um jafnan rétt séu bara ekki innleidd með viðunandi hætti.

Þá spilar auðvitað inn í þetta líka áhrif efnahagskreppunnar sem grískt samfélag hefur ekki enn náð sér upp úr og er einmitt ástæða þess að árum saman hefur verið kallað eftir því að ríki innan Evrópu sýni Grikklandi samstöðu með því að hætta að endursenda fólk inn í verndarkerfi þar, að Evrópuríki ættu frekar að sýna sóma sinn í að deila byrðunum þannig að það lendi ekki í of miklum mæli á þeim löndum sem vegna landfræðilegrar stöðu sinnar taka að sjálfsögðu á móti miklu fleira flóttafólki sem fyrsti viðkomustaður en við sem erum stödd hér á norðurhjara.

Þetta er nú sú hlið Schengen-kerfisins sem íslensk stjórnvöld hafa alltaf viljað líta fram hjá. Það hefur verið ríkur vilji hjá stjórnsýslunni að líta á möguleika Schengen-kerfisins til að auðvelda stjórnvöldum að flytja fólk frá Íslandi og til Grikklands t.d. en miklu minna og jafnvel ekki neitt af því að íslensk stjórnvöld hafi boðist til að létta undir með þeim grísku með því að bjóða fólk úr þeirra kerfi velkomið hér á landi.

Ég ætlaði að fjalla aðeins betur um húsnæði, ég geri það væntanlega bara næst.