Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Það hefur verið mjög áhugavert að sitja hér í dag og heyra hæstv. fjármálaráðherra öðru sinni leggja áherslu á að það sé meiri hlutinn sem ræður hér á þinginu, sem andsvar við því að meiri hlutinn sé að brjóta stjórnarskrá. Það eru sannarlega vonbrigði en það skýrir ýmislegt þegar það eru viðhorfin sem ráða för. Virðingin fyrir stjórnarskránni er ekki meiri en svo.

Ég ætla að halda áfram yfirferð minni á þessu frumvarpi þar sem, eins og ég hef ítrekað sagt og ég mun segja eina ferðina enn og halda áfram að segja, og það geri ég af fullri virðingu fyrir öllum hv. þingmönnum: Ég óttast að fólk sem hyggst samþykkja þetta frumvarp á þessu þingi geri sér ekki grein fyrir hvað verið er að samþykkja. Ég hef því ákveðið að ég muni ekki geta fest svefn eftir að þetta frumvarp er orðið að lögum nema ég sé búin að gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja það að fólk hafi alla vega haft alla kost á að skilja hvað er hér í gangi. Mörgum finnst þetta móðgandi. Það var alls ekki ætlun mín þegar ég segi þetta. Þvert á móti þá, frá mínum bæjardyrum séð, er það verra ef fólk gerir sér raunverulega grein fyrir hvað það er að samþykkja en það ætlar samt að gera það. Ég er kannski svolítið að gefa fólki kredit, mögulega ekki verðskuldað, ég veit það ekki. Ég hef trú á fólki hér. Ég ætla að halda áfram.

Ég var að fjalla um c-lið 8. gr. frumvarpsins sem gengur út á það að, ég ætla að leyfa mér að segja: eyðileggja ákveðna tímafresti sem voru settir inn í lögin árið 2016 og voru ein mesta réttarbótin sem þar kom fram. Og við höfum svo sem fengið það staðfest að alla jafna þá takist stjórnsýslunni að klára meðferð mála innan 12 mánaða. Það hefur farið svolítið umfram þann tíma undanfarið, mestmegnis vegna heimsfaraldurs Covid. Í núgildandi lögum, sem sett voru árið 2016 og tóku gildi 1. janúar 2017, komu inn tímafrestir — og ég ætla að reyna að gera þetta svolítið skýrt af því að það eru tvö ákvæði sem ég þarf að bera saman til að byrja með. Það komu inn tímafrestir, annars vegar varðandi þær umsóknir þar sem er verið að skoða möguleikana á því að vísa umsókninni frá vegna þess að viðkomandi hefur fengið vernd í öðru ríki eða að annað ríki ber ábyrgð á umsókninni á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þetta eru kölluð Dyflinnar- og verndarmál.

Hins vegar erum við að tala um mál sem eru í svokallaðri efnismeðferð þar sem þessi mál lúta oft að börnum. Óánægjan sem hefur ríkt þar varðar það að efnismeðferð getur þá tekið talsvert langan tíma, sérstaklega þegar það leikur mikill vafi á um aðstæður í heimaríki. Báðir þessir ferlar voru taldir taka of langan tíma og það voru allir sammála um það, allir aðilar sem komu að þessari vinnu, hvar sem þau stóðu; Rauði krossinn, stjórnvöld sjálf, allir aðilar voru sammála um að málsmeðferðin væri of löng, bæði í þessum Dyflinnar- og verndarmálum, sem snúast um að vísa máli frá, og í efnismeðferð þar sem fólk fær áheyrn og er spurt af hverju það flúði heimaríki, hvort það sé flóttamenn og hvort það uppfylli skilyrði flóttamannasamningsins.

Teknir voru upp tveir tímafrestir fyrir hvora tegund mála um sig. Vegna svokallaðra Dyflinnar- og verndarmála var tekinn upp þessi svokallaði 12 mánaða frestur. Afleiðingarnar af því ef málið tekur lengri tíma en 12 mánuði eru þær að málið er tekið til efnismeðferðar, viðkomandi fær áheyrn. Það er búið að ákveða: Já, ókei. Við ætlum að taka málið til efnismeðferðar. Í mjög mörgum tilvikum, sérstaklega þegar við tölum um verndarmál, er það fljótafgreitt vegna þess að viðkomandi hefur fengið viðurkennda stöðu flóttamanns í öðru ríki, það er nokkurn veginn óumdeilt að viðkomandi sé flóttamaður, málsmeðferðin tekur stuttan tíma. Í Dyflinnarmálum getur þetta tekið lengri tíma og kannski er það að einhverju leyti rétt að segja að þar fari önnur málsmeðferð í gang, samt sem áður alltaf umsækjanda í hag.

Nú er ég bara rétt að byrja að útskýra, ég ætla að reyna að halda þessu til haga. Ég er að tala um þessa tvo flokka: Í Dyflinnarverndarmálum var settur 12 mánaða frestur. Í efnismeðferðarmálum var settur inn sá kostur að ef málsmeðferð hefur tekið meira en 18 mánuði þá getur fólk átt kost á svokölluðu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sem er frekar mikið drasldvalarleyfi, en ég fer yfir það síðar, að uppfylltum ákveðnum mjög ströngum skilyrðum. Sem sagt tveir frestir; 18 mánuðir og 12 mánuðir. (Forseti hringir.) — Ég held áfram eftir augnablik. Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.