Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir þá dóma sem hafa vikið að mannréttindasáttmála Evrópu áður en hann var lögfestur á Íslandi og er kominn hingað, með leyfi forseta:

„Í dómi Hæstaréttar, sem birtist í dómasafni frá 1990, bls. 92, voru málavextir þeir að manni hafði verið gert á fyrri stigum að sæta gæsluvarðhaldi við rannsókn opinbers máls á grundvelli ákvæðis í þágildandi lögum um meðferð opinberra mála sem heimilaði slíka frelsissviptingu í tilvikum þar sem ástæða þótti til að ætla að sakborningur hefði gerst sekur um refsiverða hegðun og ætla mætti að brot hans varðaði að minnsta kosti tveggja ára fangelsi. Í framhaldi af þessu var höfðað opinbert mál á hendur manninum, en dómarinn, sem fékk málið til úrlausnar, var sá sami og hafði áður leyst úr kröfu um gæsluvarðhald yfir honum. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að íslenska ríkið hafi á árinu 1953 fullgilt samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis og skuldbundið sig þar með að þjóðarétti til að tryggja að maður, sem er gefin að sök refsiverð háttsemi, fái notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óhlutdrægum dómara. Í dóminum er greint frá dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, uppkveðnum 24. maí 1989 í máli á hendur danska ríkinu, þar sem talið var að ekki hafi verið fyrir hendi nægileg trygging skv. 6. gr. samningsins fyrir óhlutdrægni dómara í tilviki þar sem sami dómari kvað upp efnisdóm í máli og hafði kveðið á um gæsluvarðhald sakborningsins á fyrri stigum eftir sams konar reglu danskra laga og hafði verið beitt sem grundvelli fyrir gæsluvarðhaldi í þessu máli. Er síðan vísað til þess í dómi Hæstaréttar að í dómi hans, sem var gerð grein fyrir hér næst á undan, hafi verið byggt á því að skýra verði íslenskar lagareglur um hæfi dómara með tilliti til samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis, og varð því niðurstaðan sú að héraðsdómaranum bar að víkja sæti vegna áðurnefndra afskipta sinna af málinu á fyrri stigum. Þess má geta að sams konar úrlausn er að finna í dómasafni frá 1990, bls. 266.“

Eins og ég hef nefnt áður voru nokkur svona mál sem fóru fyrir Mannréttindadómstólinn. Við erum einmitt að glíma við svipuð mál í kjölfar Landsréttarmálsins þar sem við erum enn og aftur að vesenast í þeim tilvikum þar sem um getur verið að ræða óvilhalla dómara. Við erum einhvern veginn afskaplega léleg í þessu, að við skulum núna 30 árum seinna enn vera að vesenast í svona málum og ekki kunna þetta nægjanlega vel. En áfram segir, með leyfi forseta:

„Í dómi Hæstaréttar í dómasafni frá 1991, bls. 1690, var leyst úr kröfu fiskvinnslufyrirtækis um ógildingu úrskurðar sjávarútvegsráðherra um upptöku ólögmæts sjávarafla á grundvelli laga nr. 32/1976. Til stuðnings kröfu um ógildingu úrskurðarins var því borið við að ákvæði laganna væru andstæð 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem löggjafinn hafi með setningu þeirra gengið lengra við að leggja úrlausnarvald um ágreining í hendur framkvæmdarvaldinu en stjórnarskráin heimili. Þá var því borið við til frekari stuðnings að ákvæði laganna væru andstæð 1. mgr. 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Í dóminum var ekki fallist á þá röksemd að löggjafinn hafi lagt úrlausnarvald í of ríkum mæli í hendur framkvæmdarvaldinu, enda væri hægt að fá skorið úr um lögmæti úrskurðar sjávarútvegsráðherra eftir á í dómsmáli. Segir síðan í dómi Hæstaréttar: „Þá er ekki heldur fallist á það, að framangreind lög séu andstæð 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en sáttmálinn hefur ekki öðlast lagagildi hér á landi.““

Þetta er klassískt stef og það eru nokkrir dómar eftir sem ég ætla að fara yfir aðeins seinna í dag en ég læt þetta duga í þessari yfirferð. Það eru kaflar þar sem er farið frekar yfir kærur á hendur íslenska ríkinu um brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans. Það er svo farið yfir áhrif mannréttindasáttmálans á lagasetningu og áhrif lögfestingar mannréttindasáttmálans á lagaframkvæmd og síðan röksemdir fyrir lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu og samspil mannréttindasáttmála og stjórnarskrár Íslands. Það er nóg að fjalla um hérna í kjölfarið en ég ætla að taka smá pásu í bili og hleypa öðrum að.