Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég get alveg skilið að fólk haldi að við séum í málþófi þegar við erum að útskýra til hvers við erum með mannréttindi, til hvers við erum með stjórnarskrá. Því miður er bara búið að sýna okkur það hér á þessu þingi að engin vanþörf er á að rifja það upp þegar hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma hérna, berja hnefanum í borð og segja að meiri hlutinn ráði þegar við erum að benda á að það sé verið að brjóta stjórnarskrá. Það virðist aðeins búið að gleymast til hvers stjórnarskráin er. Ég ætla að halda áfram með tilraunir mínar til að útskýra þetta frumvarp á mannamáli þar sem þetta er annars vegar lögfræðilega flókið frumvarp en það er líka ekki alltaf alveg skýrt hvað frumvarpshöfundum gengur til og því langar mig svolítið til að fara yfir það.

Það sem ég er að fara yfir núna eru frestirnir sem verið er að, ég leyfi mér að nota orðið eyðileggja í c-lið 8. gr. frumvarpsins, frestir sem voru settir árið 2016 til þess að tryggja skjóta málsmeðferð og tryggja það að ef málsmeðferð dregst á langinn séu einhver úrræði fyrir umsækjendur í þeirri stöðu þar sem það hefur almennt þótt óásættanlegt fyrir viðkomandi og líka fyrir kerfið okkar að mál dragist á langinn, enda vitum við að einstaklingar sem eru í málsmeðferð eru upp á aðstoð og ölmusu ríkisins komnir. Þannig að það eru allir sammála, það er hagur allra, hvar sem við stöndum í pólitík, hvar sem þeir standa í kerfi eða utan, við viljum að málsmeðferð taki skjótan tíma og við viljum — eins og kemur fram í lögunum eins og þau eru í dag, þau voru samþykkt í þverpólitískri sátt árið 2016 — að ef málsmeðferðin dregst á langinn og það er ekki við umsækjanda að sakast þá eigi hann úrræði.

Við erum með tvenns konar mál — við erum reyndar með margs konar mál en ég ætla að einfalda þetta með því að tala um tvenns konar. Það eru annars vegar umsóknir sem vísað er frá, svokölluð verndar- og Dyflinnarmál sem er vísað frá af því að það er hægt að senda fólk eitthvert annað og láta eitthvert annað ríki díla við þetta, hvort sem þau eru flóttamenn eða ekki. Hins vegar eru það efnismeðferðarmál þar sem við skerum úr um það hvort fólk sé flóttamenn eða ekki og veitum þeim þá dvalarleyfi ef þau eru flóttamenn en vísum þeim til heimaríkis ef þau eru það ekki. Í þeim málum sem til stendur að vísa frá, þessum svokölluðu Dyflinnar- og verndarmálum, gildir þessi 12 mánaða frestur sem er í 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga. Hann er þannig að ef málsmeðferðin frá upphafi umsóknar fram að flutningi fer umfram 12 mánuði á viðkomandi rétt á því að málið sé endurupptekið og það fari í efnismeðferð sem ætti ekkert að taka langan tíma. Í yfirgnæfandi meirihluta tilfella þar erum við að tala um fólk sem er viðurkennt flóttafólk og hefur fengið stöðu sína viðurkennda einhvers staðar annars staðar. Í efnismeðferðarmálum eru það 18 mánuðir og reyndar talsvert þröng skilyrði. Fólk þarf að vera með skilríki, það þarf að vera búið að mæta í viðtal, það þarf að vera samvinnuþýtt og annað slíkt. En það er annað sem er líka ólíkt við 18 mánaða frestinn og það er að hann er talinn frá umsóknardegi þangað til kærunefnd útlendingamála hefur komist að niðurstöðu. Eftir það geta stjórnvöld tekið 14 ár í að reyna að moka fólki úr landi ef það hefur fengið synjun og það hefur engin áhrif á rétt þess.

Það hefur verið gerð athugasemd við þetta og öll mannúðarsamtök hafa verið sammála um að frestirnir eins og þeir eru túlkaðir í frávísunarmálunum, Dyflinnar- og verndarmálunum, séu eðlilegri, sérstaklega þegar um börn er að ræða. Barn gerir engan greinarmun á því hvort kærunefnd útlendingamála sé búin að úrskurða í máli þess eða ekki. Barn er bara hér á landi og svo er það bara flutt úr landi eftir einhvern X langan tíma. Þannig að það hvort ákvörðun sé lokið á stjórnsýslustigi, það sé komið í hendur stoðdeilda lögreglu eða ekki hefur barnið ekki hugmynd um og veit ekkert um það og það breytir engu fyrir það. Á meðan barnið er hér á landi gengur það skóla, það kynnist öðrum börnum, það lærir tungumálið, það lærir menninguna, annað slíkt. Þess vegna hefur þótt mikilvægt að þessir tímafrestir miðist við flutning úr landi, líka vegna þess að það er sannarlega á ábyrgð stjórnvalda að flytja fólk úr landi sem hefur fengið synjun og getur ekki farið sjálft. Það er heldur ekkert deilt um það.

Það sem er verið að leggja til í þessu frumvarpi hins vegar er að samræma túlkun á þessum frestum en í öfuga átt við það sem lagt hefur verið til af hálfu mannúðarsamtaka. Það á að færa þessa túlkun, að ekki sé hægt að rjúfa frestinn eftir að kærunefnd útlendingamála hefur komist að niðurstöðu, það er verið að láta það gilda um allar umsóknir. Það er sem sagt verið að fara í öfuga átt við það sem hefur verið lagt til.

Ég mun útskýra þetta aðeins betur í næstu ræðu minni. Ég átta mig á því að þetta er þungt í vöfum en ég held áfram að gera mitt besta og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.