Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég ætla að lesa upp úr lögunum það sem ég kalla upptalningu á þeim málum sem Útlendingastofnun hefur tapað, ýmist fyrir kærunefnd útlendingamála eða dómstólum, þar sem Útlendingastofnun hefur talið eitthvað vera tafir á ábyrgð umsækjenda sem hefur svo ekki verið rétt vegna þess að það eru engar tafir á málsmeðferð á ábyrgð umsækjenda. Með því að lögfesta það ætlar Útlendingastofnun að ná sínu fram. Við erum með þessa 12 mánaða reglu. Ef mál er í frávísunarferli og vísa á umsókninni frá vegna þess að vernd hefur annaðhvort fengist í Grikklandi eða eitthvert annað ríki ber ábyrgð á umsókninni á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þá skal umsóknin tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir það ef umsækjandi hefur ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, með leyfi forseta:

„… enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka. Við mat á því hvort viðkomandi hafi borið ábyrgð á töfum á afgreiðslu máls skal m.a. líta til þess hvort viðkomandi hafi dvalist á ókunnum stað um tíma, framvísað fölsuðum skjölum eða gefið misvísandi upplýsingar um auðkenni sitt, ekki mætt í boðað viðtal eða læknisskoðun eða að öðru leyti ekki sýnt samstarfsvilja við meðferð, úrlausn eða framkvæmd máls. Teljist umsækjandi á einhverjum tíma hafa tafið mál sitt samkvæmt framangreindu á hann ekki rétt á efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins í þessari málsgrein.“

Það er alveg ljóst að frumvarpshöfundar líta svo á að það sé einhvers konar tap fyrir ríkið að einstaklingur hljóti efnismeðferð ef málsmeðferð dregst fram úr hófi. Útlendingastofnun tapar þegar hælisleitandi fær hér vernd. Mér alla vega þótti það vera staðfest á þeim fundum sem við áttum með ráðuneytinu að litið væri á það sem einhvers konar refsingu fyrir stjórnvöld þegar einstaklingur hlýtur réttindi af því tekið hafði óralangan tíma að vinna í málinu hans.

Eitt skýrasta dæmið í þessari upptalningu um það að Útlendingastofnun hafi talið eitthvað vera tafir á ábyrgð umsækjenda, sem ekki hefur verið fallist á, er að einstaklingur hafi framvísað fölsuðum skjölum. Það var vitað þegar þetta frumvarp var lagt fram og hefur alltaf verið vitað að það er mjög algengt að flóttafólk þurfi að framvísa fölsuðum skilríkjum þegar það er á flótta. Það er svo viðurkennt og er talið svo sjálfsagt vegna þess að við höfum byggt upp kerfi þar sem er beinlínis ólöglegt að fara á milli landa til að sækja um hæli. Öll löggjöf Evrópu er þannig úr garði gerð og sér í lagi á Íslandi. Einstök Evrópuríki eru með sérreglu sem býður upp á svokallað mannúðar-„visa“. Við erum ekki með það. Á Íslandi er engin leið fyrir flóttamann að koma til landsins og sækja um hæli án þess að hægt sé að segja að það sé í raun brot á lögum um útlendinga. Það er engin heimild til að koma og sækja um hæli, en ef þú ert flóttamaður og kemur hingað til lands þá átt þú rétt á vernd. Er það mótsögn? Já, þess vegna kemur bókstaflega fram í 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, vegna þess að svona er þetta í mörgum ríkjum og ekki bara á Íslandi, þótt þetta sé svolítið mikil mótsögn, að það megi ekki refsa flóttamanni fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Þetta er mjög mikil undantekning frá refsingu fyrir hegningarlagabrot sem almennt er talið mjög alvarlegt. Skjalafals er alvarlegt hegningarlagabrot, en það er talið rétt að flóttafólk sé undanþegið frá því vegna þess að það er þekkt og viðurkennt að það á ekki annarra kosta völ. Stór hluti flóttafólks neyðist til að fara þessa leið, með eða án aðstoðar skipulagðra glæpahópa og -manna, vegna þess kerfis sem við höfum byggt upp. Þarna erum við að tala um fólk sem er raunverulega á flótta, svo það sé á hreinu. Það virðist oft mikill misskilningur ríkja um að raunverulegir flóttamenn geti komið hingað en ekki óraunverulegir flóttamenn, en það er ekki svoleiðis. Raunverulegir flóttamenn, sem eru að flýja stríðsástand í Afganistan eða ég veit ekki hvað, mega ekki koma hingað. Með þessu frumvarpi á að lögfesta að það teljist tafir á ábyrgð umsækjanda að hafa framvísað skilríkjum vegna þess að einhver skilríkjarannsókn þarf að fara í gang sem fer fram samhliða málsmeðferð, svo það komi fram, og veldur engum töfum á henni nema stjórnvöld kjósi svo. (Forseti hringir.) Það er þá á ábyrgð stjórnvalda ef það tefst umfram 12 mánuði að kanna skilríki fólks. — Ég óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.