Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:13]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram að fara yfir umsögn Rauða krossins. Ég var komin hér í umsögn þeirra um 4. gr. þessa frumvarps til laga.

„Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og í 2. mgr. 71. gr. kemur m.a. fram að ekki megi gera líkamsrannsókn á manni eða rannsókn á skjölum sem skerðir einkalíf hans nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Ákvæði 2. mgr. 71. gr. er sérregla sem tengist einkum rannsóknar- og þvingunarráðstöfunum lögreglu í tengslum við sakamál en í 3. mgr. 71. gr. er hins vegar almenn regla um takmarkanir á friðhelgi einkalífs réttinda sem falla undir ákvæðið. Samkvæmt 3. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt m.a. friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Í 2. mgr. 71. gr. er ekki vísað til tiltekins markmiðs, eins og gert er í 3. mgr. sömu greinar, en markmið takmarkana sem taldar eru í 2. mgr. 71. gr. stefna einkum að því að firra glundroða eða glæpum, er í þágu almannaheilla auk þess sem þær kunna að vera í þágu þjóðaröryggis, án þess að það sé tilgreint í sjálfu stjórnarskrárákvæðinu.

Hefur ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar verið túlkað í framkvæmd með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans á sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Í 2. mgr. 8. gr. segir að „[o]pinber stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í dómaframkvæmd sinni komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla opinberra aðila á mjög viðkvæmum upplýsingum, einkum upplýsingum sem varða andlega og líkamlega heilsu auðkennanlegs einstaklings, falli undir gildissvið 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu […]

Þá hefur Mannréttindadómstóllinn í dómaframkvæmd sinni einnig komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga án samþykkis viðkomandi stríði gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu nema ef lög mæla fyrir um hana, hún stefnir að einu eða fleiri þeirra markmiða sem getið er í 2. mgr. 8. gr. sáttmálans og hún er nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi til að ná því markmiði sem að er stefnt. Þá skuli landslög kveða skýrt á um það umfang og þá aðferð sem stjórnvöldum er heimil við vinnslu persónuupplýsinga til að tryggja einstaklingum þá lágmarksvernd sem þeir eigi rétt á.“