Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Gullfallegur jólasnjór sem fellur hérna úti, sérstaklega fallegur út um þessa fallegu glugga. En það er nú eitthvað síður fallegt sem við erum að ræða hér í dag sem er algerlega tilgangslaus og óþörf aðför að réttindum flóttafólks og annars fólks, sem kannski er ekki meginatriðið.

Ég var hér að lesa upp úr dómi sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur um daginn þar sem rætt var um það hvers lags tafir gætu talist á ábyrgð umsækjenda til að firra hann réttinum til efnislegrar meðferðar umsóknar eftir að meðferð málsins var búin að taka hátt í tvö ár. Já, við erum að ræða hérna mann að nafni Hussein sem var fluttur, sem frægt er orðið, til Grikklands ásamt fjölskyldu sinni þrátt fyrir að nokkrir dagar væru í niðurstöðu í málinu. Ýmislegt benti til þess að stjórnvöld máttu alveg vænta þess að hún færi eins og hún fór, sem gerir það að verkum að hann hafði heimild til að koma aftur til landsins. Nú ætlar hæstv. dómsmálaráðherra að láta Hussein og fjölskyldu hans þjást aðeins lengur. Hvers vegna vitum við ekki alveg en það er búið að áfrýja málinu til Landsréttar.

Ég ætla að lesa upp úr héraðsdóminum vegna þess að hann er svolítið upplýsandi um tilgang þessa frumvarps. Eins og ég hef ítrekað haldið fram þá er þessi liður frumvarpsins sem við erum að ræða hér, c-liður 8. gr., fyrir mér sem hef verið með ansi mörg mál í þessum málaflokki, upptalning á málum sem Útlendingastofnun hefur tapað fyrir kærunefnd útlendingamála eða fyrir dómstólum. Tapað, sem sagt hefur Útlendingastofnun litið svo á að tafir á málsmeðferð væru ábyrgð umsækjenda en kærunefndin eða, eins og hér gerist, dómstólar telja ekki sanngjarnt að líta svo á að umsækjandi hafi verið ábyrgur fyrir töfunum.

Ég ætla að biðja hlustendur að taka vel eftir þeim dagsetningum sem koma fram í þessu máli. Það hefur komið fram að Hussein sótti um vernd hér á landi þann 8. desember 2020. Þann 9. desember 2021 óskar hann eftir endurupptöku málsins með vísan til þess að meira en ár er liðið síðan hann kom til landsins, hann eigi því rétt á endurupptöku og efnismeðferð.

„Með úrskurði kærunefndar útlendingamála 3. febrúar 2022“ — á fertugsafmælisdaginn minn, það er frekar leiðinlegt — „var synjað um nefnda endurupptöku. Í forsendum úrskurðar kærunefndar kemur fram að nefndin telur að af þeim upplýsingum sem hún aflaði frá Útlendingastofnun megi ráða að háttsemi kæranda hafi valdið töfum á málsmeðferðinni. Fram kemur í úrskurðinum að lögmaður kæranda hafi sent tölvubréf til heilsugæslunnar Fjarðar 22. nóvember 2021 og óskað eftir bólusetningarvottorði með vísan til þess að lögregla hafi óskað eftir að kærandi framvísaði bólusetningarvottorði vegna fyrirhugaðrar endursendingar hans til Grikklands.“

Ég ætla að staldra aðeins við til þess að skýra tímalínuna. 8. desember 2020 sækir hann um. 9. desember 2021 er komið ár. 22. nóvember 2021, rétt um tveimur vikum áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að hann sótti hér um, eftir 11 mánuði og tvær vikur þar sem ekkert bendir til þess að Hussein hafi nokkuð gert til að tefja málsmeðferð og það er eining um það, þá er óskað eftir bólusetningarvottorði. Eitthvað gerist sem veldur því að lögregla fær ekki þetta bólusetningarvottorð en við komum að því síðar. Ég er bara að vekja athygli á tímalínunni. Það líða 11 og hálfur mánuður af 12 áður en hann er talinn vera að tefja málsmeðferðina að mati Útlendingastofnunar og lögreglunnar.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Kærunefndin“ — sem er málsaðili í þessu máli — „vísar til þess að í athugasemdum kæranda 21. janúar 2022 komi fram að hann neiti því að hafa verið spurður af lögreglu hvort hann væri bólusettur en segist hafa upplýst lögreglu um að hann hefði fengið Covid-19 sýkingu. Kærunefnd telur með vísan til þessa að misræmi sé í skýringum kæranda og því sem ráða megi af nefndu tölvubréfi lögmanns hans. Því verði að líta svo á að tafir á málsmeðferðinni séu á ábyrgð kæranda, enda hafi hann ranglega haldið því fram við stoðdeild Ríkislögreglustjóra að hann væri bólusettur við Covid-19 og óskað eftir vottorði um það. Þessi háttsemi kæranda hafi valdið töfum á málsmeðferðinni sem sé á ábyrgð kæranda.“

Þá er ræðutíminn búinn. Ég veit að hlustendur og áhorfendur bíða æsispenntir. Ég mun halda áfram að fara að reifa þennan dóm í næstu ræðu minni og óska eftir því að fá að fara aftur á mælendaskrá.