Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:29]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram að fara hér yfir umsögn Rauða kross Íslands um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og er komin að 4. gr. laganna sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lagaákvæði sem mæla fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. gagna er varða andlegt og líkamlegt heilbrigði, án samþykkis viðkomandi þurfa því að uppfylla framangreind skilyrði svo unnt sé að takmarka rétt manna sem tryggður er með 8. gr. mannréttindasáttmálans og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þær undantekningar sem koma fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans eru skýrt afmarkaðar og ber að túlka þröngt með hliðsjón af almennri lögskýringarreglu stjórnskipunarréttar enda er þar kveðið á um takmarkanir á grundvallarmannréttindum sem borgurum eru tryggð.

Þegar greinargerð við frumvarpið er skoðuð telur Rauði krossinn ljóst að markmiðið með því að veita lögreglu heimild til að afla heilbrigðisvottorða um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings án samþykkis hans fellur ekki undir þau markmið sem stjórnarskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu telja lögmæt og talin voru upp hér að framan. Markmiðið virðist vera að unnt sé að vÍsa einstaklingum úr landi á sem skilvirkastan hátt eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar eða úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir. Fær Rauði krossinn ekki séð að það markmið eitt og sér geti talist lögmætt enda ekki nauðsynlegt vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þá telur Rauði krossinn þær aðstæður sem upp komu á meðan heimsfaraldurinn geisaði ekki geta réttlætt heimild lögreglu til að afla hvers kyns upplýsinga um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings til þess eins að geta flutt hann úr landi.

Þegar greinargerð við frumvarpið er skoðuð telur Rauði krossinn ljóst markmiðið með því að veita lögreglu heimild til að afla heilbrigðisvottorða um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings án samþykkis hans fellur ekki undir þau markmið sem stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu telja lögmæt og talin voru upp hér að framan. Markmiðið virðist vera að unnt sé að vísa einstaklingum úr landi á sem skilvirkastan hátt. Eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar eða úrskurður kærunefndar útlendingamála liggur fyrir fær Rauði krossinn ekki séð að það markmið eitt og sér geti talist lögmætt enda ekki nauðsynlegt vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar til þess að firra glundroða eða glæpum til að vernda heilsu manna, siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þá telur Rauði krossinn þær aðstæður sem upp komu á meðan heimsfaraldur geisaði ekki geta réttlætt heimild lögreglu til að afla hvers kyns upplýsinga um andlegt og líkamlegt heilbrigði útlendings til þess eins að geta flutt hann úr landi.

Takmarkanir á mannréttindum mega, eins og áður segir, ekki ganga lengra en nauðsynlegt er svo að markmið þeirra náist. Takmarkanir þurfa því að vera í samræmi við svokallaða meðalhófsreglu. Í þeirri reglu felst að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í þessu felst annars vegar að þegar stjórnvöld hafa val um fleiri en eina leið til að ná tilteknu markmiði beri að velja það úrræði sem vægast er. Hins vegar verður við beitingu þess úrræðis sem valið er að stilla því í hóf svo sem kostur er. Hvergi er fjallað um það í athugasemdum við frumvarpið hvort sérstaklega hafi verið litið til þess hvort önnur vægari úrræði væru tæk svo hægt verði að framkvæma ákvarðanir um brottvísanir og frávísanir.“