Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:35]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Herra forseti. Mig langar að tala örlítið um samráð. Ég var að skoða umsögn Læknafélags Íslands. Þar er vísað til umsagnarbeiðni sem þeim barst seint á síðasta ári. Þessi umsögn sýnir svo greinilega að það erum ekki bara við sem erum að benda á þetta samráðsleysi heldur vísar Læknafélagið í raun bara til fyrri umsagnar vegna þess að þau verða þess jafn áskynja og við að það er ekkert gert við umsagnirnar. Umsagnirnar eru bara teknar til hliðar og geymdar og ég veit ekki hvað. Svo er bara óskað eftir fleirum og fleirum og það er ekkert gert við þetta. Þetta er ekki samráð og þetta er bara tímasóun. Við erum að sóa tíma fólks með því að senda út ótal umsagnarbeiðnir, taka við umsögnum og svo verður ekkert úr þeim, svo á ekkert að gera við þetta, svo á bara að halda sig við þá stefnu sem þegar hefur verið tekin.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þetta þurfi að endurskoða. Við þurfum að nálgast málin af meiri virðingu en svo að við óskum eftir því að fólk leggi sinn tíma í að skrifa umsagnir, sem fela í sér gríðarlega gagnlegar upplýsingar, gríðarlega mikilvægar upplýsingar, gríðarlega mikilvæg sjónarmið, og nýtum það ekki. Við verðum að gera eitthvað úr þessu mikla framlagi sem er að finna í 27 umsögnum sem nú þegar hafa borist. Í þeim nær öllum eru athugasemdir við bæði frumvarpið almennt sem og við einstakar greinar. Þegar athugasemdirnar við greinar frumvarpsins eru skoðaðar þá ber þeim í alveg ótrúlega mörgum tilvikum mjög saman um ágallana sem eru alvarlegir og stórhættulegir.

Það að sjá Alþingi Íslendinga ekki reiðubúið að bregðast við því, ekki reiðubúið að bregðast við umsögnum, ekki einu sinni reiðubúið að taka umræðuna, því að hér höldum við áfram að tala fyrir nánast tómum sal, það væri eitt ef þetta væri frumvarp sem hefði verið búið að koma fram einu sinni eða tvisvar mögulega en þetta er í fimmta skipti sem frumvarpið er lagt fram. Það er einnig gegnumgangandi þráður í umsögnum að umsagnaraðilar vísa til þess að hafa sent inn umsagnir í hvert einasta skipti sem frumvarpið hefur komið fram, í hvert einasta skipti. Samráðsleysið er þá mjög augljóst þeim sem les þetta því að ef tekið hefði verið mark á fyrri umsögnum væri væntanlega ekki verið að senda inn ítrekaðar umsagnir. Það er ætíð gegnumgangandi þráður í þessum umsögnum að umsagnaraðilar eru fúsir, boðnir og búnir, til frekara samráðs, til að koma og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Það hefur auðvitað engan tilgang þegar búið er að ákveða niðurstöðuna og kalla fólk svo til samtals að ræða orðinn hlut. Það þjónar ekki þeim tilgangi að vera samráð. Það er bara eitthvað allt annað.