Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:56]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég var hérna í síðustu ræðu að minnast á umsögn Læknafélagsins sem, eins og svo margar aðrar, virðist lítið hafa nýst við vinnslu frumvarpsins. Ætla ég því, með leyfi forseta, að gera henni skil og lesa upp úr henni:

„Vísað er til tölvubréfs Alþingis frá 28. október sl., þar sem óskað er álits Læknafélags íslands (LÍ) á frumvarpi laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd), 382. mál á 153. löggjafarþingi.

Á fyrri stigum gaf LÍ og Félag læknanema umsögn um frumvarpið og gerði þá einkum athugasemdir við áform í 19. gr. þess frumvarps sem þá var til umfjöllunar. Þar var gert ráð fyrir að lögregla mætti skylda útlending til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn ef nauðsynlegt þætti til að tryggja framkvæmd. Félögin gerðu alvarlega athugasemd við þessi áform og töldu þau ekki samrýmast 3. gr. Helsinki-yfirlýsingarinnar. Umsögnin fylgir hjálögð. Þegar frumvarpið var lagt fram í apríl sl. (595. mál á 152. löggjafarþingi) hafði ákvæðið verið fellt út.

Í fyrirliggjandi frumvarpi er í 4. gr. gert ráð fyrir að á eftir 2. mgr. 17. gr. komi ný málsgrein sem gefi lögreglu heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði til að ferðast. LÍ gerir ekki athugasemd við þetta nýja ákvæði enda sýnist það í samræmi við 2. mgr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 32/2012.

LÍ vill þó árétta þá afstöðu að kalli útgáfa heilbrigðisvottorðs á heilbrigðisskoðun eða læknisrannsókn á grundvelli nýrrar 3. mgr. 17. gr. laganna, verði frumvarpið að lögum, og viðkomandi samþykkir ekki slíka rannsókn þá verður hún aldrei framkvæmd að mati LÍ nema að undangengnum dómsúrskurði.

Vegna 6. gr. frumvarpsins, sem breytir 8. mgr. 33. gr. laganna, leggur LÍ þunga áherslu á að það takist innan 30 daga tímafrestsins að framfylgja ákvörðun svo ekki komi upp sú staða að þessi hópur njóti almennt ekki þeirra grunnmannréttinda sem heilbrigðisþjónusta telst vera. Vissulega er í ákvæðinu tekið fram að ekki sé heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Ákvæðið gerir ekki ráð fyrir að almenn heilbrigðisþjónusta falli þar undir. Að njóta heilbrigðisþjónustu eru grundvallarmannréttindi eins og áður segir eins og fram kemur í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest.“

Undir þetta ritar fyrir hönd stjórnar formaður Læknafélagsins.

Ég held þá áfram og les fyrri umsögn Læknafélagsins:

„Umsögn um drög að frumvarpi til laga.

Umsögn þessi fjallar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd), sem birt var á samradsgatt.is þann 28. janúar 2022. Því miður náðist ekki að senda umsögnina inn í samráðsgáttina áður en fresturinn rann út þann 11. febrúar og hún því send beint til dómsmálaráðuneytisins.

Stjórn Læknafélags Íslands (LÍ) og stjórn Félags læknanema (FL) hefur yfirfarið umrædd drög að lagafrumvarpi og gerir alvarlegar athugasemdir við þann hluta frumvarpsins er varðar heilbrigðisskoðanir og læknisrannsóknir

Stjórnir LÍ og FL koma fram eftirfarandi athugasemdum, um 19. grein frumvarpsins:

1. í 19. gr. er lögreglu gert „heimilt að skylda útlending til að gangast undir heilbrigðisskoðun og læknisrannsókn ef nauðsynlegt þykir til að tryggja framkvæmd“. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega fjallað um að þetta taki m.a. til heilbrigðisskoðana til að tryggja að einstaklingur „sé nægilega hraustur til að geta ferðast (e. fit-to-fly)”. Við teljum þetta ekki samræmast þeim siðareglum sem læknar starfa eftir. Í 3. gr. Helsinki-yfirlýsingarinnar eru siðareglur lækna í þessu samhengi vel teknar saman …“

— Nú er ljóst að ég mun ekki ná að ljúka þessari yfirferð á þeim tíma sem hér er eftir og óska ég þess því að vera settur aftur á mælendaskrá.