Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Við erum hér að ræða tafir á ábyrgð umsækjenda sem geta valdið því að hann missi rétt til þess að fá umsókn sína afgreidda hér á landi þrátt fyrir að í lögum sé kveðið á um 12 mánaða frest sem stjórnvöld hafa til að klára málið, flytja fólk úr landi. Um þetta mál, sem sagt um túlkun á því ákvæði laganna að fresturinn í rauninni rofni ef umsækjandi sjálfur bar ábyrgð á töfum á meðferð málsins, hafa fallið talsvert margir úrskurðir kærunefndar útlendingamála þar sem þetta ákvæði hefur verið mótað og túlkun þess verið mótuð. Því hef ég verið að benda á það hér að það er ekki rétt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sem við erum að ræða, að ætlunin sé að skýra þetta ákvæði. Ef ætlunin væri að skýra ákvæðið væri eðlilegt að það væri gert í samræmi við þá framkvæmd sem hefur orðið sem kærunefndin hefur markað. En nei, það sem er verið að gera með tillögunni í c-lið 8. gr. frumvarpsins er akkúrat öfugt, það er verið að lögfesta þá framkvæmd sem Útlendingastofnun hefur í rauninni verið gerð afturreka með. Það er verið að lögfesta túlkun Útlendingastofnunar á því hvað telst vera tafir á ábyrgð umsækjenda þrátt fyrir að eftir hlutlaust mat hafi ýmist kærunefnd eða dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé sanngjarnt að meta þær tafir á ábyrgð umsækjenda. Dæmið sem ég var að fara yfir hér er frægt mál Husseins nokkurs sem var fluttur úr landi bara nokkrum dögum áður en hann fékk dóm héraðsdóms í máli sem hann vann gegn ríkinu þar sem akkúrat þessari spurningu var svarað. Það var nefnilega þannig í máli Husseins að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála voru sammála um það að hann bæri ábyrgð á töfum á meðferð málsins með því að hafa sagt ósatt til um það að hann væri bólusettur eða hvort hann hefði fengið Covid. Þetta er dálítið óskýrt í málsatvikum sem er ein af ástæðum þess að héraðsdómur fellst ekki á að hann beri sjálfur ábyrgð á þessu. En ég ætla að lesa áfram upp úr þessum dómi, með leyfi forseta:

„Einsog rakið er hér að framan mun lögregla hafa hitt stefnanda 19. nóvember 2021 á dvalarstað hans og birt honum tilkynningu um að flytja ætti hann til Grikklands. Um það hvað stefnanda og lögreglu fór á milli við þetta tilefni er margt á huldu og takmörkuð sönnunarfærsla fór fram um það fyrir dómnum. Þannig liggur ekki fyrir hvort stefnandi hélt því ranglega fram við lögreglu að hann hefði verið bólusettur gegn Covid-19 eins og byggt er á af hálfu kærunefndar eða hvort hann upplýsti lögreglu um að hann hefði sýkst af sjúkdómnum. Því er að mati dómsins með öllu óljóst hvort stefnandi reyndi á einhvern hátt að villa um fyrir yfirvöldum til að tefja fyrir brottflutningi sínum þótt það hafi á engan hátt verið útilokað. Verður því ekki fallist á að kærunefnd útlendingamála hafi verið rétt að synja endurupptökubeiðni stefnanda 3. febrúar 2022 á þeim grundvelli sem hún gerði. Þá er einnig til þess að líta að 19. nóvember 2021 voru liðnir ellefu og hálfur mánuður frá því að stefnandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi. Jafnvel þó svo að fallist væri á að stefnandi hefði með einhverjum ráðstöfunum sínum eða villandi upplýsingagjöf valdið töfum á máli sínu er augljóst að þær tafir voru minniháttar og óverulegur hluti málsmeðferðartímans. Þá verður einnig að árétta að það að umsækjandi um alþjóðlega vernd valdi töfum á málsmeðferð sem leiði til þess að fallast verði á að lögákveðinn hámarksmálsmeðferðartími stjórnvalda, í skilningi 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga, framlengist veldur ekki því að nýr tólf mánaða frestur stofnist eða að hámarkstími málsmeðferðar sé eftir það ótakmarkaður. Slík túlkun myndi hvorki samræmast málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga eða almennum sjónarmiðum um túlkun reglna um lögmæltan málsmeðferðartíma. Þá er engan fót fyrir slíkri skýringu að finna í lögskýringagögnum. Þannig virðist augljóst að jafnvel þótt fallist væri á að málsmeðferðartími í máli stefnanda hefði átt að framlengjast fram yfir 8. desember 2021, sem dómurinn fellst ekki á, hefði sú framlenging fyrir löngu verið liðin er úrskurður kærunefndar útlendingamála var upp kveðinn 3. febrúar 2022, hvað þá þegar málsmeðferðartíma í máli stefnanda loksins lauk þann 3. nóvember 2022. Samkvæmt framansögðu telur dómurinn að óréttmætt hafi verið að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á töfum á meðferð máls hans sem hafi leitt til þess að ekki varð af brottflutningi hans innan eins árs frests 2. mgr. 36. gr. útlendingalaga.“

Þar með er það komið. Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá og ætla að koma með fleiri dæmi þess þar sem Útlendingastofnun hefur talið umsækjanda bera ábyrgð á töfum á máli sínu. (Forseti hringir.) Ég tel nokkuð augljóst að það sé ekki sanngjarnt en það er það sem er verið að reyna að lögfesta hér.