153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég er hér að ræða c-lið 8. gr. frumvarpsins sem gengur út á það að lögfesta hvað teljist vera tafir á ábyrgð umsækjenda sem geti valdið því að hann eigi ekki rétt á efnismeðferð umsóknar sinnar þrátt fyrir að málsmeðferð hafi dregist umfram ársfrest sem gefinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Líkt og ég nefndi hérna áðan kom 2. mgr. 36. gr. ný inn í lögin árið 2016 og var hún sett inn í kjölfar ábendinga alls staðar um að málsmeðferðartími í þessum málum væri of langur. Þá var ákveðið að setja tiltekið þak á það hversu langan tíma stjórnvöld hefðu til að klára málsmeðferð og ákveðið að í þeim málum þar sem til stendur að vísa umsókninni frá, ýmist vegna þess að einstaklingurinn er með vernd í öðru ríki eða það á að senda hann eitthvað annað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þá skuli taka málið til efnismeðferðar. Hann skuli ekki sendur til þeirra ríkja heldur verði mál hans opnað á Íslandi og viðkomandi spurður hvers vegna hann flúði heimaríki og athugað hvort hann eigi rétt á stöðu sem flóttamaður. Þetta er þeim takmörkunum háð að teljist umsækjandi sjálfur bera ábyrgð á töfum þeim sem hafa orðið á málsmeðferðinni öðlast hann ekki rétt. Það var alveg samhugur um þetta. Túlkunin á því hvaða tafir geta talist á ábyrgð umsækjanda hefur verið mörkuð í framkvæmd kærunefndar útlendingamála og það er reyndar nefnt í frumvarpinu. Ramminn sem kærunefnd útlendingamála hefur sett utan um þetta, að tafir séu á ábyrgð umsækjenda sjálfs, er, með leyfi forseta:

„… þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.“

Ég ætla aðeins að gera hlé á tilvitnuninni. Þetta er nokkuð skýrt. Það sem kærunefndin er að segja er að jafnvel þó að umsækjandi tefji mál sitt vísvitandi í einn dag eða tvo daga á þessu 12 mánaða tímabili er augljóst að tafir á málsmeðferðinni eru ekki fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis viðkomandi. Þær eru óverulegar og ljóst að hægt var að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn. Skylda stjórnvalda til þess að klára málið innan 12 mánaða er enn þá skýr. Þetta er alveg skýrt.

Ég ætla að halda aðeins áfram með greinargerðina vegna þess að hún er nokkuð sláandi. Hún er sláandi vegna þess að með þeirri tillögu sem lögð er fram í c-lið 8. gr. frumvarpsins er verið að leggja til að börn verði látin líða fyrir athafnir foreldra sinna. Ókei, gæti hafa gerst af slysni, gæti hafa verið yfirsjón af hálfu frumvarpshöfunda og verður lagað en nei, við lestur greinargerðarinnar með þessu ákvæði í frumvarpinu má glöggt sjá að meginmarkmiðið með þessari breytingu er að tryggja að foreldrar geti ekki svindlað með því að tefja mál barna sinna. Það þarf því að laga lögin þannig að börn geti liðið fyrir athafnir foreldra sinna og misst rétt til efnismeðferðar þrátt fyrir áralanga dvöl hér á landi vegna þess að foreldrar þeirra gerðu eitthvað sem börnin höfðu kannski ekki hugmynd um. Reyndar er gengið lengra í tillögunni í frumvarpinu. Það eru ekki bara foreldrar heldur bara einhver í umhverfi barnsins sem kemur fram fyrir þess hönd. Það gæti allt eins verið talsmaðurinn sem skilaði greinargerð viku of seint og þá er bara hægt að flytja barn úr landi þó að það sé búið að vera hérna í þrjú ár.

Ég er rétt að byrja eins og vanalega. Ég hugsa að ég láti staðar numið hér þar sem ef ég held áfram þá mun ég ekki ná að koma neinu fram á þessum 15 sekúndum sem ég á eftir. Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.