Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég er að fjalla um c-lið 8. gr. sem breytir ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna, sem kveður á um að ef mál sem er í frávísunarmeðferð er ekki klárað og ekki er komist að niðurstöðu um það hvort eigi að frávísa málinu eða ekki innan 12 mánaða, þá eigi viðkomandi rétt á því að málið verði tekið til meðferðar hér á landi nema hann beri sjálfur ábyrgð á töfum á málsmeðferðinni. Líkt og ég fór yfir áðan þá hefur kærunefndin markað nokkuð skýra túlkun á þessu með því að segja að það teljist vera tafir á ábyrgð umsækjenda þegar tafir á málsmeðferð eða flutningi verða fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst sé að hægt hefði verið að flytja viðkomandi áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Ég held að allir sem þetta heyra hljóti að vera sammála því að þetta sé sanngjörn nálgun. Útlendingastofnun er því ekki sammála og ég held að ráðuneytið sé það ekki heldur, að mínu mati vegna þess að þau eru yfir höfuð ósátt við að fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki eða sem annað ríki ber ábyrgð á samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni fái yfir höfuð efnismeðferð hér á landi. Ég held að það liti afstöðu þeirra til þessara fresta þó að þessir frestir hafi verið settir þarna inn vegna þess að það þykir ótækt — það þótti öllum sem komu að þessu, fyrst kom það fram í skýrslu sem var gerð um stöðu fólks frá ríkjum utan EES og heimild þess til að koma hingað til lands og setjast að og í þverpólitískri vinnu við lög nr. 80/2016. Það eru allir sammála um að það þurfi að gera eitthvað til að flýta málsmeðferð og þetta snýst um það. Þetta snýst um að flýta málsmeðferð, en einhverjar þurfa afleiðingarnar að vera fyrir umsækjanda ef málsmeðferðin dregst fram úr hófi og ákvörðun var tekin um að það væri eðlilegt að viðkomandi fengi efnismeðferð umsóknar sinnar ef það gerðist. Það er alveg ljóst af greinargerðinni að frumvarpshöfundum finnst þetta allt mjög óeðlilegt og eru í rauninni mótfallnir þessum tímafrestum. Í stað þess, eins og upphaflega var raunar reynt með þessu frumvarpi — það var reynt í öllum hinum fjórum útgáfunum af þessu frumvarpi og var inni ákvæði um að fella þetta brott, fella þetta ákvæði úr gildi að því er varðar fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki. Við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru og tala um fólk sem hefur fengið vernd í Grikklandi, það eru fyrst og fremst þeir einstaklingar sem leita hingað eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd, enda er það ekki virk vernd. Um er að ræða Grikkland, Ungverjaland, að einhverju leyti Ítalíu og síðan stöku hræðu frá öðrum ríkjum af öðrum ástæðum. Það var fallist á það, væntanlega í einhvers konar samningaviðræðum við þingmenn meiri hlutans sem tilheyra Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, að falla frá þeirri breytingu, sem hefði í rauninni afnumið rétt fólks sem hefur fengið vernd í öðru ríki til þess að fá áheyrn hér á landi. Það stóð til að afnema það og var fallið frá þeirri breytingu, en í staðinn er verið að leggja til í þessu frumvarpi að eyðileggja þessa fresti og eyðileggja í raun ákvæðið í stað þess að fella það brott eða láta það ekki gilda. Það var ákveðið að éta það að innan.

Í næstu ræðu minni — ég er bara rétt byrjuð að röfla hérna, ég er bara með einhvern inngang og tíminn er búinn — ætla ég að rökstyðja þetta og mun þurfa að rekja þetta aftur. Þegar ræðutíminn er svona stuttur þá stendur maður sig svolítið að því að endurtaka sig trekk í trekk. Ég ætla að reyna að gera sem minnst af því í næstu ræðu minni, en þá mun ég fara yfir það orðalag sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sem ég tel að staðfesti þann grun minn að rökin fyrir því að eyðileggja þessa tímafresti séu ekki þau að þeir séu ósanngjarnir og að það sé hræðilegt að fólk tefji mál sitt og knýi eitthvað fram með því, heldur séu Útlendingastofnun, sem ég tel að hafi samið þetta frumvarp, og dómsmálaráðuneytið einfaldlega mótfallin því að fólk eigi einhvern möguleika á efnismeðferð ef það hefur fengið vernd í öðru ríki. En væri þá ekki nær að fella ákvæðið bara brott frekar en að eyðileggja það að innan? — Ég óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.