Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:44]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Ég ætla að halda áfram að taka hér upp úr umsögn Rauða krossins á Íslandi um þetta frumvarp til laga. Við erum núna að ræða um 6. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með því að kveða á um niðurfellingu á þjónustu er varðar grunnvelferð fólks er hætta á að alvarleg vandamál skapist. Umræddir einstaklingar yrðu þar með berskjaldaðir fyrir hvers kyns misneytingu, mansali og ofbeldi. Breytingin hefði þau áhrif á íslenskt samfélag að heimilislausu fólki myndi fjölga, örbirgð og neyð aukast. Samhliða því myndu líkurnar á skaðlegri hegðun og afbrotum aukast. Ljóst er að álag á félagsleg kerfi sveitarfélaga og lögreglu mun aukast samhliða breytingunni.“

Mig langar aðeins að staldra við þessa málsgrein vegna þess að fyrir Rauða krossinum á Íslandi og einnig fyrir mér er það svo skýrt að heimilislaust fólk verður á götunum og það verður meiri neyð. Það eru miklu meiri líkur á skaðlegri hegðun og afbrotum vegna þess að ef neyðin verður svo mikil þá gerir fólk alls konar hluti til að bregðast við, allir. Enginn er undanskilinn því. Mjög skýrar og alvarlegar áhyggjur eru hafðar af þessu frumvarpi. Þetta eru ekki einu umsagnaraðilarnir sem hafa verulegar áhyggjur af þessu, fleiri umsagnir hafa áhyggjur af því nákvæmlega sama. Því veltir maður fyrir sér: Eru allir þessir umsagnaraðilar að misskilja málið? Hvernig er það? Eru alls konar mismunandi samtök og einstaklingar mjög mikið að misskilja? Er þetta ekkert sem við þurfum í raun og veru að hafa áhyggjur af, eða hvað? Mér finnst mjög ólíklegt að allir séu bara algjörlega að misskilja hverjar afleiðingar eru af því að svelta fólk til hlýðni. Það er náttúrlega það sem er verið að leggja til hér, að fólk fái ekki neitt og eigi bara að fara. En við höfum engar upplýsingar um að það muni ganga eftir og að það eigi ekki eftir að hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér og mjög mikinn ófyrirséðan kostnað og álag á sveitarfélög, lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk. Það er mjög mikilvægt að allur þingheimur taki þessar umsagnir alvarlega og taki mjög ígrundaða ákvörðun þegar atkvæði verða greidd um þetta frumvarp til laga ef þetta stendur óbreytt.