Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:41]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Eins freistandi og það kann að vera að demba sér beint í lesturinn þá get ég varla gert þeim það sem sitja heima og hlusta að vaða bara af stað samhengislaust. Ég finn mig því knúinn til að nefna að ég hef verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil, af því að mér þykir einfaldlega ljóst að of mikið beri í milli til að við getum hafa verið að skoða sömu gögnin. Því held ég áfram yfirferð minni, með leyfi forseta:

„Af lestri greinargerðar með frumvarpinu og umræðum um málið í allsherjar- og menntamálanefnd telur 3. minni hluti ljóst að ákvæðinu sé ætlað að útrýma málum þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar er snúið við eftir að ný gögn og upplýsingar breyta forsendum málsins og leiða til annarrar niðurstöðu. Fjölgaði þeim málum talsvert í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, þar sem málsmeðferð stjórnvalda fór þá í mörgum tilvikum fram úr 12 mánaða tímamarki 2. mgr. 36. gr. gildandi laga, sem leiðir jafnan til þess að umsækjandi eigi rétt á efnismeðferð umsóknar sinnar verði honum sjálfum ekki kennt um tafir á málinu. Við umfjöllun um málið í allsherjar- og menntamálanefnd kom þó fram að fjöldi beiðna um endurupptöku væri talsverður, jafnvel óháð heimsfaraldri, og að talsvert oft væri fallist á slíkar beiðnir þar sem þær eru taldar uppfylla lagaskilyrði. Að mati 3. minni hluta bendir hátt hlutfall beiðna um endurupptöku og ekki síður hátt hlutfall mála þar sem fallist er á slíka beiðni fremur til þess að annmarkar séu á málsmeðferð stjórnvalda á fyrri stigum, sem að mati 3. minni hluta gefur frekar tilefni til þess að réttur umsækjenda til endurupptöku máls verði styrktur. Er mikill fjöldi endurupptekinna mála að mati 3. minni hluta sérdeilis ómálefnaleg ástæða til þess að afnema jafn mikilvægt réttarúrræði og rétt til endurupptöku máls vegna nýrra gagna eða breyttra forsendna.

Til viðbótar við afnám réttar fólks til endurupptöku er með 7. gr. frumvarpsins (ásamt nýrri skilgreiningu í 1. gr. þess) útfærð málsmeðferð svokallaðra „endurtekinna umsókna“. Ákvæðið vekur upp ýmsar spurningar, þar eð sett eru tiltekin afar matskennd skilyrði fyrir því að svokölluð „endurtekin umsókn“ verði tekin til meðferðar. Ákvæði þetta sætti alvarlegum athugasemdum af hálfu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem gerði einfaldar og skýrar tillögur að breytingum á ákvæðinu til þess að það samræmdist réttindum flóttafólks. Vísast til umsagnar Flóttamannastofnunar um þær tillögur sem meiri hlutinn sá ekki ástæðu til að bregðast við með neinum hætti, hvorki með breytingum á frumvarpinu né á annan hátt.

Til viðbótar við athugasemdir Flóttamannastofnunar hafa verið færð sterk rök fyrir því að ákvæði þetta brjóti hugsanlega í bága við stjórnarskrána og þau mannréttindi sem þar eru tryggð, auk 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um að einstaklingur sem á er brotinn sá réttur eða það frelsi hans skert sem lýst er í samningnum skuli eiga raunhæfa leið til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi. Ákvæði 7. gr. frumvarpsins takmarkar ekki aðeins rétt umsækjanda til réttlátrar málsmeðferðar heldur firrir það umsækjanda sem vísað hefur verið af landi brott raunhæfum leiðum til að ná rétti sínum fyrir opinberu stjórnvaldi.“

Nú er svo komið sem oft áður að ræðutími minn er á þrotum. Hér er talsvert eftir sem mig langar til að fjalla um og því óska ég þess að fá að fara aftur á mælendaskrá.