Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:46]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni hér það var ég að tala um umsögn Rauða krossins hvað varðar 7. gr. Athugasemd Rauða krossins við þessa einstöku grein frumvarpsins er ekki lítil enda er fullt tilefni til að hafa áhyggjur af þessari fyrirhuguðu lagasetningu. Ég ætla bara að halda áfram þar sem ég var og hefja tilvitnun aftur, með leyfi forseta:

„Með því að bæta við orðinu „sýnilega“ er að mati Rauða krossins þrengt enn frekar að möguleikum umsækjenda um alþjóðlega vernd að fá ákvarðanir í málum sínum endurskoðaðar á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.

Rauði krossinn telur að þegar ákvæði frumvarpsins er borið saman við skilyrðin samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga sé ljóst að þröskuldurinn fyrir endurupptöku mála samkvæmt stjórnsýslulögum er talsvert lægri en til þess að fá ákvörðun endurskoðaða skv. 7. gr. frumvarpsins. Þá eru engin skilyrði gerð í 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á beiðni viðkomandi. Þá eru fleiri skilyrði í ákvæði frumvarpsins sem ekki er að finna í 24. gr. stjórnsýslulaga, t.d. að umsækjandi skuli vera á landinu þegar endurtekin umsókn er lögð fram en óafgreiddar umsóknir falla þá niður við framkvæmd fyrri ákvörðunar eða ef umsækjandi yfirgefur landið sjálfviljugur á meðan endurtekin umsókn er til meðferðar. Hér má nefna að sú staða getur komið upp að umsækjandi hlýtur synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og er færður úr landi í kjölfarið. Eftir að viðkomandi er farinn úr landi gætu komið fram nýjar og mikilvægar upplýsingar eða gögn, sem lágu ekki fyrir þegar umsókn viðkomandi um alþjóðlega vernd var til meðferðar, sem gætu haft áhrif á niðurstöðu umsóknar og ástæða þykir með vísan til þeirra að sækja um endurskoðun ákvörðunar eða úrskurðar. Með frumvarpinu yrði girt fyrir þann möguleika umsækjanda þar sem eitt af skilyrðum endurtekinnar umsóknar er að viðkomandi sé staddur á landinu þegar endurtekin umsókn er lögð fram. Þá segir í frumvarpinu að við meðferð endurtekinnar umsóknar skuli málsmeðferð vera eins og um nýtt mál sé að ræða en ekki áframhaldandi meðferð fyrri umsóknar og að þetta hafi þau áhrif að frestir taki mið af þeim degi þegar endurtekin umsókn var lögð fram. Rauði krossinn leggur áherslu á að í fjölmörgum tilvikum eru slík mál sannanlega þess eðlis að um áframhaldandi meðferð umsóknar sé að ræða. Rangar eða ófullnægjandi forsendur geta t.a.m. hafa legið til grundvallar ákvörðun eða úrskurði án þess að umsækjanda verði kennt um að slíkar forsendur lágu fyrir. Í slíkum tilvikum telur Rauði krossinn mikilvægt að litið sé svo á að um áframhaldandi meðferð fyrri umsóknar sé að ræða en ekki tvær aðskildar umsóknir og að frestir skuli taka mið af upprunalegri umsókn.

Rauði krossinn telur rétt að vísa til þess að stjórnsýslulögin kveða á um lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar og að ákvæði í sérlögum geta almennt ekki gengið framar þeim réttindum sem borgurum eru tryggð með ákvæðum stjórnsýslulaga, nema veigamikil rök mæli með því. Að mati Rauða krossins liggja ekki slík veigamikil rök fyrir því að rétt sé að taka upp nýtt úrræði um endurtekna umsókn og að 24. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki þegar óskað er eftir endurupptöku á máli. Er því lagst gegn umræddri tillögu.“

Virðulegi forseti. Þetta er allt eitthvað sem hefur nú þegar komið fram, annaðhvort í málflutningi þingmanna sem eru að vísa í umsögn Rauða krossins eða í öðrum umsögnum.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Þegar Rauði krossinn segir að sú staða geti komið upp að umsækjandi hljóti synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og sé færður úr landi í kjölfarið en eftir að umsækjandi er færður úr landi geti svo nýjar upplýsingar komið fram, t.d. ný gögn eða nýjar upplýsingar sem gætu haft áhrif á niðurstöðu málsins — þetta er eitthvað sem hefur líka komið fram í öðrum umsögnum. Svo tekur það Útlendingastofnun almennt tíu virka daga að afhenda gögn, eða Útlendingastofnun hefur samkvæmt reynslu gefið sér tíu daga til að láta gögn af hendi sem eru nauðsynleg til þess að það teljist fullnægjandi fyrir málsmeðferð. Þar af leiðandi held ég að þetta ákvæði geti stuðlað að því að ef gögnin liggja ekki fyrir nógu snemma þá verði þessari 7. gr. beitt og heimildinni sem felst í henni. Það er svo sem ekkert nýtt sem ég er að segja hérna. Ákvæði almennra stjórnsýslulaga eiga að vega meira heldur en ákvæði í sérlögum. Þetta náttúrlega bara almenn regla í lögfræði sem ég er nokkuð viss um að fulltrúum þessa frumvarps er frekar kunnug. — Virðulegi forseti. Ég óska eftir að vera sett aftur á mælendaskrá.