Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var að lesa upp úr greinargerð frumvarps til laga um mannréttindasáttmála Evrópu þar sem er farið yfir kærur einstaklinga á hendur íslenska ríkinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er farið yfir þau tilvik þar sem nefndin hefur komist að niðurstöðu um að kæran hafi ekki verið tæk til frekari meðferðar og verið að fara yfir innihald í grófum dráttum, hver kæruefnin voru í þeim tilvikum. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Í einu tilviki að takmarkanir samkvæmt þágildandi barnalögum, nr. 9/1981, á heimildum til að leita úrlausnar dómstóla um forsjá barns fælu í sér brot á rétti samkvæmt l. mgr. 6. gr. samningsins til að fá úrlausn dómstóla um réttindi manna og skyldur.

Mannréttindanefndin hefur hins vegar fjórum sinnum talið kæru á hendur íslenska ríkinu tæka til frekari meðferðar, en afdrif þeirra mála hafa orðið með eftirfarandi hætti:

Í tveimur tilvikum töldu kærendur að meðferð refsimála á hendur sér hafi verið í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 6. gr. samningsins með því að dómarar í málunum hafi einnig haft með höndum lögreglustjórn og þar með verið yfirmenn lögreglumanna sem rannsökuðu málin á fyrstu stigum. Báðir kærendurnir höfðu krafist ómerkingar héraðsdóma á hendur sér af þessum sökum fyrir Hæstarétti, en hann hafnaði kröfum þeirra í dómum á árunum 1985 og 1987 sem var greint frá hér áður. Mannréttindanefndin taldi báðar þessar kærur tækar til frekari meðferðar og ályktaði einróma um aðra þeirra að íslenska ríkið hefði brotið gegn áðurnefndu ákvæði samningsins. Í kjölfarið lagði hún mál gegn ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Dómstóllinn varð við ósk ríkisins um að fella málið niður í mars 1990 eftir að það hafði gert sátt við kærandann, enda taldi dómstóllinn að bætt hefði verið úr því atriði í íslenskri löggjöf, sem gaf tilefni til kærunnar, með setningu laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, og þeirri stefnu um skýringu á íslenskum reglum um vanhæfi dómara sem var mörkuð með áðurnefndum dómi Hæstaréttar í dómasafni hans frá 1990, bls. 2. Um hina kæruna ályktaði mannréttindanefndin hins vegar ekki frekar því sátt var gerð fyrir nefndinni milli ríkisins og kærandans í janúar 1990 áður en til þess kom.

Í einu tilviki taldi kærandi að skert hefði verið tjáningarfrelsi hans og brotið gegn 10. gr. samningsins með sakfellingu hans fyrir brot gegn 108. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, vegna efnis tveggja blaðagreina eftir hann, svo og að meðferð dómsmáls á hendur honum af þessu tilefni hefði í tilteknum atriðum verið andstæð ákvæðum 6. gr. samningsins. Mannréttindanefndin taldi kæruna tæka til frekari meðferðar um brot gegn 10. gr. samningsins, svo og um brot gegn 6. gr. hans í einu atriði. Á síðari stigum ályktaði nefndin gegn einu mótatkvæði að ríkið hefði brotið gegn tjáningarfrelsi kærandans skv. 10. gr. samningsins en taldi hins vegar einróma að meðferð dómsmálsins á hendur honum hefði ekki verið í andstöðu við 6. gr. samningsins. Í kjölfarið lagði nefndin mál á hendur íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu til úrlausnar um bæði þessi atriði og gekk dómur í því 25. júní 1992. Meiri hluti dómara samsinnti þar því áliti mannréttindanefndarinnar að brotið hafi verið gegn tjáningarfrelsi kærandans skv. 10. gr. samningsins, en einn dómari var á gagnstæðri skoðun í sératkvæði. Á hinn bóginn var niðurstaða dómaranna einróma um að ekki hafi verið brotið gegn 6. gr. samningsins við meðferð sakamálsins á hendur kærandanum. Honum voru dæmdar bætur að fjárhæð 530.000 kr. úr hendi ríkisins vegna kostnaðar síns af málinu. Í framhaldi af þessu var dómurinn fenginn ráðherranefnd Evrópuráðsins til eftirlits um framkvæmd hans í samræmi við 54. gr. samningsins. Málinu var endanlega lokið með ályktun ráðherranefndarinnar 10. nóvember 1992 þar sem var fallist á að íslenska ríkið hefði fullnægt skyldum sínum samkvæmt dóminum með því að hafa annars vegar greitt kærandanum tildæmda fjárhæð og hins vegar kynnt efni dómsins nægilega fyrir innlendum dómstólum og handhöfum ákæruvalds.“ — Ég bið forseta vinsamlega um að setja mig aftur á mælendaskrá til þess að ég geti haldið áfram yfirferð yfir þessi mál.