Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:29]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Sökum afar stutts ræðutíma þá virðist það taka alveg gríðarlega margar ræður að fara yfir skjöl málsins. Ég hef verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar skil í ræðum og vil, með leyfi forseta, bera niður þar sem frá var horfið síðast:

„Þá eru að mati 3. minni hluta forsendur fyrir því að undanþágum ákvæðisins verði beitt þeim í hag sem sýna samstarfsvilja, svo sem lýst hefur verið yfir, afar hæpnar. Dæmi eru um að fólk dvelji hér á landi sem hefur um árabil reynt að sýna stjórnvöldum fram á að það geti ekki útvegað sér ferðaskilríki eða sé jafnvel ekki ríkisborgarar í því ríki sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að senda viðkomandi til. Með ákvæðinu er Útlendingastofnun í sjálfsvald sett að meta hvort einstaklingur hafi tök á að afla skilríkja eða ekki, án nokkurra takmarkana. Ásamt nýrri skilgreiningu á umsækjanda um alþjóðlega vernd í b-lið 1. gr. frumvarpsins, auk nýrra heimilda Útlendingastofnunar til þess að vísa fólki þangað sem stofnuninni dettur í hug með ákvörðun, sbr. b-lið 8. gr. frumvarpsins, má ljóst vera að breyting sú sem lögð er til með 6. gr. frumvarpsins myndi skapa mun fleiri vandamál en hún nokkurn tíma leysir fyrir stjórnvöld, umsækjendur um alþjóðlega vernd og íslenskt samfélag í heild.

Að öllu framansögðu virtu leggst 3. minni hluti gegn þessari óþörfu og illa ígrunduðu aðför að mannréttindum og mannvirðingu einstaklinga á flótta.

Öruggt þriðja ríki – b-liður 8. gr. Í b-lið 8. gr. frumvarpsins er lagt til að stjórnvöldum verði veitt ný heimild til þess að vísa frá umsókn um alþjóðlega vernd og vísa einstaklingi úr landi, hafi viðkomandi slík tengsl við annað ríki að Útlendingastofnun þyki eðlilegt og sanngjarnt að hann dvelji þar, ferðist eða sé fluttur þangað. Svo sem staðfest var við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd eru slíkar ákvarðanir iðulega óframkvæmanlegar þar eð stjórnvöld geta ekki flutt fólk nauðungarflutningum til annarra landa eftir geðþótta. Til þess að hægt sé að flytja fólk nauðugt á milli landa þarf viðkomandi einstaklingur annaðhvort að hafa heimild til komu og dvalar í móttökuríkinu eða viðkomandi ríki þarf að samþykkja móttöku hans með öðrum hætti, svo sem með samningum milli ríkjanna eða með öðru samkomulagi.

Breyting þessi er þannig lögð til í samfloti með breytingu sem lögð er til í 6. gr. frumvarpsins, um sviptingu þjónustu að liðnum 30 dögum frá endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi, þar eð eina leiðin til að framfylgja slíkri ákvörðun væri að viðkomandi umsækjandi tæki ákvörðun um að fara sjálfur úr landi. Eru tillögur þessar byggðar á þeim misskilningi að ástæða þess að einstaklingar fari ekki úr landi í kjölfar synjunar um alþjóðlega vernd sé að einhverju leyti sú þjónusta sem þeim er veitt hér á landi, en reynslan sýnir að því fer fjarri.

Sú breyting sem lögð er til í þessum lið frumvarpsins er að mati 3. minni hluta enn eitt dæmi um það hversu óvandað og illa ígrundað frumvarpið er.“

— Eins og svo oft áður er tími minn á þrotum og ég næ ekki að klára að gera þessu skil og óska því eftir að fara aftur á mælendaskrá.