Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:45]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Frú forseti. Ég hef í fyrri ræðum verið að gera nefndaráliti 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um þetta frumvarp skil. Þetta eru þó nokkuð margar ræður og ég ætla að sjá hvernig mér gengur að komast yfir þetta núna í þessari. Með leyfi forseta ætla ég að fá að halda áfram þar sem frá var horfið:

„Mat á jafnréttisáhrifum. Í 6. kafla greinargerðar með frumvarpinu segir: „Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á einstaklinga eftir kyni og muni því hvorki hafa áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna.“ Að mati 3. minni hluta er með frumvarpinu farið á mis við margvísleg tækifæri til umbóta. Til að mynda má nefna að þrátt fyrir lögfestingu Istanbúlsamningsins á Íslandi árið 2018 hefur skort mjög á að samningnum sé fylgt í framkvæmd hér á landi.

Istanbúlsamningurinn er alþjóðlegur samningur um forvarnir og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi, en í samningnum er sérstakt ákvæði um kynbundnar hælisumsóknir. Segir þar að aðildarríkjum samningsins beri að tryggja að kynbundið ofbeldi teljist til ofsókna í skilningi samnings um réttarstöðu flóttamanna og að kynjasjónarmiða sé gætt í móttöku- og umsóknarferlum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Samkvæmt niðurstöðum nýútkominnar meistararitgerðar í lögfræði virðist sem íslensk stjórnvöld líti ekki svo á að ákvæði Istanbúlsamningsins gildi um konur á flótta.

Vel hefði verið hægt að huga að þessum þáttum við samningu frumvarpsins. Að mati 3. minni hluta er hér um verulegan annmarka að ræða sem sýnir glöggt að tilgangur frumvarpsins snýr ekki í neinu að því að gera umbætur í þágu mannréttinda eða hagsmuna fólks á flótta.

Samantekt og tillaga. Að mati 3. minni hluta hefur móttaka flóttafólks frá Úkraínu sýnt að ekki er brýn þörf á því að gera neinar lagabreytingar til að auka skilvirkni kerfisins til muna og bregðast við þeim aukna fjölda fólks sem kemur hingað til lands í leit að friði og lífsvon. Þau vandamál sem hafa verið viðvarandi í kerfinu á undanförnum árum, þrátt fyrir þær úrbætur sem gerðar voru með lögum nr. 80/2016, orsakast af óskilvirkri framkvæmd, ómannúðlegum viðhorfum sem valda tregðu og töfum í kerfinu og af skorti á skýrum verkferlum, þekkingu og þjálfun starfsfólks.

Það sem helst einkennir frumvarp þetta eru fordómar og skortur á mannúð og virðingu fyrir fólki á flótta. Í frumvarpinu felst tilraun til að skerða réttindi flóttafólks og firra það raunhæfum úrræðum til þess að leita réttar síns samkvæmt stjórnarskrárbundnum mannréttindareglum. Þá fæli samþykkt frumvarpsins einnig í sér mjög óvandaða lagasetningu, þar sem ítrekaðar alvarlegar athugasemdir sérfróðra aðila hafa verið virtar að vettugi.

Það sýnir best forgangsröðun sitjandi ríkisstjórnar að í stað þess að takast á við þær áskoranir sem hljótast af auknum fólksflutningum, t.d. með uppbyggingu innviða og úrræða til að tryggja tækifæri fólks til inngildingar í samfélaginu, þá setur ríkisstjórnin og meiri hlutinn á Alþingi aðför að réttindum fólks á flótta í forgang.

Telur 3. minni hluti slíka ágalla á málinu að ekki sé unnt að gera nægilegar lagfæringar á því svo að una megi við að það verði samþykkt sem lög frá Alþingi. Leggst 3. minni hluti því gegn samþykkt frumvarpsins.“

Undir þetta ritar framsögumaður 3. minni hluta, hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.

Þá hef ég farið yfir þetta nefndarálit en ég á alveg eftir að gera grein fyrir áliti mínu á þessu þannig að ég bið um að fá að fara aftur á mælendaskrá.